22 febrúar 2006

íslenskutími

Skrapp á kaffihús í kvöld. Alltaf gaman að fara á kaffihús, og sérstaklega gaman þegar myndarlegar stelpur afgreiða mann. Svo þegar við vorum að fara varð mér að orði "ja, ég bara skildi töskuna mína eftir á glámbekk!"... og fór eitthvað að pæla í því hvað í ósköpunum glám- þýddi. Lofaði síðan að blogga það þegar ég væri búin að fletta því upp, svo hér kemur þetta...

Í orðabókinni er orðið gláma útskýrt á eftirfarandi hátt...
-u, -ur, kvk
1. Hvítur glampi
2. Glatt en skamvinnt sólskin - glýja, þurrkflæsa
3. Hvít snjófönn í fjöllum
4. Stór blesa - Það er gláma framan í hestinum
5. Autt bil, eyða - auður blettur

Eftirfarandi orð er einnig að finna í orðabókinni:
glámbekkur
glámblesa
glámblesóttur
glámeygur
glámkenndur
glámóttur
glámskyggn
glámsýni
Glámur

... ég skil reyndar enn ekki hvers vegna maður talar um glámbekk. Ekki er bekkurinn hvítur eða glampandi - kannski er hann auður? Það getur vel verið. Svo er soldið fyndið, að þegar maður flettir einhverju upp í orðabókinni þarf iðulega að fletta öðru orði upp... ég hef t.d. aldrei heyrt orðið þurrkflæsa áður...en það þýðir einmitt 'lélegur þerrir'... En ef við flettum upp glýja komumst við að því að það hefur ótalmargar merkingar - ein þeirra er einmitt 'daufur þerrir'.

Þá er það á hreinu! Tíu stig og ein súkkulaðibitakaka fyrir hvern þann sem getur fundið orð sem endar á -glám/-gláma/-glámur... annað en gleraugnaglámur!