25 apríl 2008

frostpinni

Á miðvikudaginn lagði ég lokahönd á stuðningsbréf til Britney Spears auk þess sem ég bjó mér til Britney bol. Skundaði síðan í afmælið hans Denis á Qbar og skemmti mér stórkostlega þar.

Þegar ég vaknaði á sumardaginn fyrsta leið mér alls ekki vel. Skrifaði svitann á illa loftræst svefnherbergi, hálsbólguna á of mikið öskur kvöldið áður, almenna vanlíðan á "kannski einn í viðbót"-bjórinn sem ég drakk. Sofnaði aftur, og var mun hressari seinni part dags. Skellti mér á kaffihús í sumarveðrinu (haha) og fór í húsaskoðunarleiðangur um miðbæinn. Var ofurlítið orkuminni en flesta daga, en hugsaði lítið meira um það.

Í morgun var ég búin að týna röddinni minni. Eftir tedrykkju, ræskingar og tilraunir til að skrúbba ógeðið innan úr hálsinum á mér gafst ég upp og bað litlusystur um að hringja mig inn veika. Endurheimti hluta af röddinni upp úr hádegi og var gífurlega ánægð, enda ekki alveg vön því að þegja svona lengi samfleytt.

Litlasystir er góð og gaf mér græna frostpinna - það er eina meðalið sem nauðsynlegt er við hálsbólgu og hita. Nú er mig hinsvegar farið að langa í ís með súkkulaðisósu, snakk og lakkrísrör. Alltíbland. Held það hljóti að þýða að ég sé að hressast, enda eins gott. Ég hef ekki þolinmæði í að vera veik lengur en einn dag, og svo þarf ég að mæta á árshátíð á morgun...

02 apríl 2008

gúglað

Um daginn skrifaði ég afar langa færslu um það hversu leiðinlegar google-leitir leiða fólk á bloggið mitt. Færslan týndist einhversstaðar í neti Inters, en innihaldið var eitthvað á þessa leið:

Leitarorðið prjónauppskriftir virðist vera mjög vinsælt. Verð þó að svekkja bandbrjálaða (haha) prjónauppskriftagúglara með því að á þessu bloggi hafa engar prjónauppskriftir verið birtar, og mér þykir ólíklegt að á því verði nokkur breyting. Bendi áhugafólki um prjónaskap hins vegar á þessa og þessa bloggsíðu.

Þetta er ekki uppskriftablogg. Og mig langar að benda þeim sem gúglaði avókadósmjör á að það er mun líklegra að leitin beri árangur ef leitarorðinu er snarað yfir á ensku. Nú, annars gætirðu líka prófað að leita að lárperumauki. Það er smart (ég skal baka súkkulaðiköku fyrir þann sem veit í hvern ég var að vitna!!).

Verst þykir mér þó að einhver gúglaði Mirale og endaði á blogginu mínu. Nú heldur kannski einhver útí bæ að ég sé svona mínímalísk og karakterslaus og geymi óopnaðar listaverkabækur undir glerplötunni á stofuborðinu og yddi blýantana mína með rafmagnsyddara. Það þykir mér miður.

Niðurstaðan var semsagt sú að 1) ég blogga um hundleiðinlega hluti, og/eða 2) Íslendingar googla hrútleiðinlega hluti. Hvort er betra, hundur eða hrútur?

Ég tók því þá ákvörðun að blogga bara um eitthvað djúsí á næstunni. En þá sá ég fram á vandamál. Stundum er lífið svo tíðindalítið að ég blogga um prjónaskap, eldhúsævintýri og húsgagnaverslanir. Þannig er það bara. En þegar eitthvað djúsí gerist í raun og veru hef ég alls ekki tíma til að blogga. Og ef ég hef tíma til þess get ég það bara ekki, því ég reyni að vera kurteis og mér þykir ekki við hæfi að blogga um hvaðsemer. Það er að segja, mér þykir ekki við hæfi að blogga um hvaðsemer þegar aðrar manneskjur eiga hlut að máli. Og þannig er það nú oftast þegar eitthvað djúsí gerist, eða hvað?

En nú þarf ég ekki að örvænta lengur. Það gúglaði nefnilega einhver sofa hjá kennaranum mínum og endaði á blogginu mínu. Það er hvorki hundur né hrútur!