01 nóvember 2006

Þriðjudagur...

... og það þýðir kaffihús.

Er afskaplega vanaföst, og ef það lítur út fyrir að engin kaffihúsaferð verði farin á þriðjudegi veit ég bara ekki hvað ég á af mér að gera. Og aldrei skyldi neinum detta í hug að skella sér á kaffihús á fimmtudegi í staðinn!! Ónei.

Umræðuefni kvöldsins voru sérstaklega skemmtileg. Enda skemmtilegar stelpur. Ég var að reyna að virkja þær í gagnrýninni umræðu um samfélagið (það er partur af Operation GrowUp, sem er í fullum gangi þessa dagana...) en það gekk eitthvað illa. Og þegar ég vildi ræða um pissuverkefnið þarna í LHÍ, snerist umræðan upp í eitthvað allt, allt annað.

Spurning kvöldsins var sem sagt: Hvort myndirðu frekar vilja pissa á einhvern, eða láta pissa á þig?

Sko ef þú yrðir að velja?

02 október 2006

Það fyndnasta sem ég hef heyrt:

Silja: Ef þú hættir ekki að jóðla þá drep ég þig!

(er þetta ekki akkúrat eitthvað sem maður heyrir á öllum venjulegum heimilum??)

19 september 2006

Annaðhvort er ég með bilaðan litlaputta, eða ég er með of litlar hendur til að halda á músum.
Þetta lærði ég í skólanum í dag.

14 september 2006

Mér finnst rigningin góð!

Ég er ekki að plata.
Hjólaði í grenjandi rigningu í skólann og aftur heim og það var þrusugaman. En ég var líka í hlýjum og regnheldum fötum frá toppi til táar (má maður blanda merkjum? var sko nefninlega í cintamani og 66°N og north face).
Gore-Tex er sko vinur minn!
Skrapp svo aðeins á Esjuna að gera tíðnimælingar á plöntum. Þar var sól og blíða!

06 apríl 2006

Í kvöld bjó ég til guacamole. Það var ágætt. Litlusysturnar vildu endilega eiga steininn innan úr avocadoinu, og allt í lagi með það. Nema, önnur þeirra ákvað að smakka steininn. Og var svo furðu lostin þegar hún komst að því að hann bragðaðist alls ekki vel. Síðan reyndi hún að fá mig til að fá mér "bita" af steininum. Og skellti að lokum sýrðum rjóma á hann. ( "Pældu í því hvað það hefði verið frábært ef ég hefði bara komist að því að avocadosteinar væru lostæti!?" )

Systir mín er sko sextán ára.

Ég held stundum að ég eigi steiktustu fjölskyldu í heimi.

22 febrúar 2006

íslenskutími

Skrapp á kaffihús í kvöld. Alltaf gaman að fara á kaffihús, og sérstaklega gaman þegar myndarlegar stelpur afgreiða mann. Svo þegar við vorum að fara varð mér að orði "ja, ég bara skildi töskuna mína eftir á glámbekk!"... og fór eitthvað að pæla í því hvað í ósköpunum glám- þýddi. Lofaði síðan að blogga það þegar ég væri búin að fletta því upp, svo hér kemur þetta...

Í orðabókinni er orðið gláma útskýrt á eftirfarandi hátt...
-u, -ur, kvk
1. Hvítur glampi
2. Glatt en skamvinnt sólskin - glýja, þurrkflæsa
3. Hvít snjófönn í fjöllum
4. Stór blesa - Það er gláma framan í hestinum
5. Autt bil, eyða - auður blettur

Eftirfarandi orð er einnig að finna í orðabókinni:
glámbekkur
glámblesa
glámblesóttur
glámeygur
glámkenndur
glámóttur
glámskyggn
glámsýni
Glámur

... ég skil reyndar enn ekki hvers vegna maður talar um glámbekk. Ekki er bekkurinn hvítur eða glampandi - kannski er hann auður? Það getur vel verið. Svo er soldið fyndið, að þegar maður flettir einhverju upp í orðabókinni þarf iðulega að fletta öðru orði upp... ég hef t.d. aldrei heyrt orðið þurrkflæsa áður...en það þýðir einmitt 'lélegur þerrir'... En ef við flettum upp glýja komumst við að því að það hefur ótalmargar merkingar - ein þeirra er einmitt 'daufur þerrir'.

Þá er það á hreinu! Tíu stig og ein súkkulaðibitakaka fyrir hvern þann sem getur fundið orð sem endar á -glám/-gláma/-glámur... annað en gleraugnaglámur!