Ég var í vinnunni í dag, eins og svo marga aðra daga. Það var ljúfur letidagur, sólin skein og úti í garði var buslað og sungið og rólað. Sumir höfðu það bara kósí og sleiktu sólina, enda um að gera að nýta tækifærið - maður veit aldrei hvað hún stoppar lengi.
Mér tókst að setjast niður í örfáar mínútur nokkrum sinnum (ég bara getekki setið kjurr, skil ekki af hverju það er svona erfitt. og kjurr er sérstaklega skemmtilegt orðskrípi). Í eitt skiptið settist góður vinur minn hjá mér, og við fórum að rabba um daginn og veginn, og litinn á flíkum fólksins í kringum okkur. Samræðurnar voru nokkuð fyrirsjáanlegar. Þessi strákur var í rauðum bol, og þessi stelpa var í brúnni peysu. Ég var í grænum bol - erfitt að missýnast það eitthvað, enda bolurinn grænni en nokkur önnur flík í fataskápnum mínum (þar sem grænt er í miklum meirihluta). Strákurinn sjálfur var hinsvegar í svart- og hvítröndóttum bol - eða það hélt ég, þar til ég spurði hann sjálfan að því hvaða litur þetta væri eiginlega. Svarið var skýrt og greinilegt - sebrahestur.
Sebrahestur! Að sjálfsögðu. Til hvers að vera að bögglast með fleiri orð en þarf til að lýsa hlutunum?