26 júní 2007

lýsingarorð

Ég var í vinnunni í dag, eins og svo marga aðra daga. Það var ljúfur letidagur, sólin skein og úti í garði var buslað og sungið og rólað. Sumir höfðu það bara kósí og sleiktu sólina, enda um að gera að nýta tækifærið - maður veit aldrei hvað hún stoppar lengi.

Mér tókst að setjast niður í örfáar mínútur nokkrum sinnum (ég bara getekki setið kjurr, skil ekki af hverju það er svona erfitt. og kjurr er sérstaklega skemmtilegt orðskrípi). Í eitt skiptið settist góður vinur minn hjá mér, og við fórum að rabba um daginn og veginn, og litinn á flíkum fólksins í kringum okkur. Samræðurnar voru nokkuð fyrirsjáanlegar. Þessi strákur var í rauðum bol, og þessi stelpa var í brúnni peysu. Ég var í grænum bol - erfitt að missýnast það eitthvað, enda bolurinn grænni en nokkur önnur flík í fataskápnum mínum (þar sem grænt er í miklum meirihluta). Strákurinn sjálfur var hinsvegar í svart- og hvítröndóttum bol - eða það hélt ég, þar til ég spurði hann sjálfan að því hvaða litur þetta væri eiginlega. Svarið var skýrt og greinilegt - sebrahestur.

Sebrahestur! Að sjálfsögðu. Til hvers að vera að bögglast með fleiri orð en þarf til að lýsa hlutunum?

13 júní 2007

gömul

Ég varð gömul, það var fínt. Það eina sem ég er búin að fá í afmælisgjöf eru matreiðslubækur. Það er líka fínt. Ég fékk Matarást frá stelpunum og hoppaði næstum hæð mína af gleði - því tvennt af því sem mér þykir skemmtilegast er matur og alfræðiorðabækur. Gerði svo systur mínar vitlausar með því að fletta upp mozarellaosti og brasilíuhnetum og múskati - og lesa upphátt.

Ég fékk líka gott veður í ammælisgjöf, og síðan ég varð gömul hefur sólin skinið stanslaust. Í dag kom ég heim með eldrauða handleggi. Ó-ó. Nú er ég með flott mynstur á úlnliðnum eftir úrið mitt - það er töff.

Ef það verður gott veður á morgun ætla ég að safna í sandalamunstur.

Ógissla spennó!