Þegar við Helga keyrðum niður Heiðina á miðvikudag var ég næstum farin að gráta af gleði. Seyðisfjörðurinn var bestur, eins og alltaf. Ég náði þó ekki að skreppa upp í Botna, en það er ekki öll von úti enn - ég ætla aftur austur um Verslunarmannahelgina. Ég æddi samt upp einhver fjöll og hljóp þar um hlæjandi, og fékk mér einn Seyðisfjörð (það er besti réttur í heimi - tvær ristaðar brauðsneiðar með sultu og alltof sterkt kakómalt). Lungað var frábært - litlufrænkurnar æfðu sirkusleiklist í viku og stóðu sig með prýði á uppskeruhátíðinni. Helgin var rugluð, ég fór í partí á föstudagskvöldið þar sem ég þekkti eina manneskju, en allir þekktu afa minn. Á laugardaginn skálmaði ég um bæinn og upp í fjall, kom mér loks heim í Afahús um hálf níu. Mér tókst að sofa í tvo tíma, en þá hrökk ég upp handviss um að klukkan væri orðin eitt og Arna og Sylvía væru lagðar af stað í bæinn án mín. Skóflaði í mig tveimur kornfleksskálum (ég er nokkuð viss um að ég hafi enn verið drukkin, svona miðað við að nokkrum tímum seinna kom ég varla niður hálfri franskri kartöflu), en áttaði mig svo á því að ég hefði tíma til að skreppa í sturtu og allt. Bílferðin heim var skemmtileg en löng - ég þambaði rándýrt melónujógúrt á Mývatni, á Akureyri störðu viðskiptavinir Skalla á okkur Örnu eins og við værum eineygðir kaffibollar, og Nylon-lög voru sungin af mikilli innlifun í Borgarnesi. Svaf barasta ekki neitt, og ekki heldur í nótt, og af hverju í ósköpunum er ég ekki enn farin að sofa?
Hér erum við litlafrændið. Augljóslega Íslendingar - hamingjusamasta fólk í heimi!
