19 febrúar 2008

skátastúlka

Í vetur er mig búið að dreyma oft og lengi um besta stað í heimi. S'mores, sundsprett í Langlois-vatni, hóp af hlæjandi smástelpum, klifurvegg, brenndar sojapylsur, hjólatúr til Carnation.


Í sumar ætla ég að synda, hjóla, klifra, hlæja, borða. Og ég get ekki beðið. Verst að ég nenni alls ekki að hrinda öllu í framkvæmd sem ég þarf að gera. Það er bara febrúar - óralangt þangað til sumarið kemur - en samt þarf ég að fara í myndatöku, fylla út pappíra, sækja um vegabréfsáritun og fara til læknis núna. Ooooh.


En í sumar.... í sumar ætla ég að lykta eins og varðeldur, verða fáránlega sólbrunnin, úfin, ósofin og útúrstressuð - og það verður yndislegt.

Einu sinni fann ég sumarbúðahamingjuna við aðrar aðstæður en í sumarbúðunum. Það var í tjaldferðalagi (ég var semsagt úfin, ósofin, og lyktaði eins og varðeldur - kannski það sé skilyrði fyrir þessari tegund af hamingju?). Þá sagði ég Rachel að það eina sem ég þarfnaðist í lífinu væri akkúrat þar - tjald, varðeldur, flaska af víni og einhver til að deila þessu með. Ég hugsa að ég hafi aldrei verið væmnari um ævina. Gerði síðan heiðarlega tilraun til að mynda hamingjuna - sjáiði hana?

14 febrúar 2008

prófalestur

Í morgun fór ég í heimapróf í þroskasálfræði.

Allt í lagi með það. Sálfræði er fín. Nema hvað, í gær vaknaði ég óvart ekki fyrr en um hádegið. Ég átti eftir að læra fyrir prófið. Af því það var komið hádegi varð ég að þjóta beinustu leið í vinnuna. Ég tók sálfræðibókina með mér og vonaði hálfpartinn að einhvernveginn myndu uplýsingarnar rata úr starfsmannaskápnum inní hausinn á mér á meðan ég klippti, límdi, horfði á töfrabrögð og sópaði gólf. Það gerðist ekki, og ég átti enn eftir að læra fyrir prófið. Eftir vinnu var samhristingur, þar sem ég hélt áfram að leika mér. Og átti enn eftir að læra fyrir prófið. Þegar það var búið að hrista okkur mátulega mikið saman hefði sumum þótt sniðugt að fara heim að lesa. En mér þótti mun sniðugra að fara og fá mér bjór. Og annan. Ekki þann þriðja, sem betur fer. Þegar ég kom heim átti ég ennþá eftir að læra fyrir prófið. Svo ég settist niður. Las þrjár blaðsíður og tvær glærur. Og steinsofnaði.

Þegar ég vaknaði klukkan átta-fimmtán í morgun átti ég enn eftir að læra fyrir prófið. Það byrjaði klukkan átta-þrjátíu.

Ég er búin í prófinu - en ég er ekki ennþá búin að læra fyrir það.

Það var samt fínt að taka próf á naríunum.