22 febrúar 2007

Við Silja systir erum búnar að vera hálf fúlar yfir væntanlegum kvöldverðum á heimilinu. Innkaupalistinn á ísskápshurðinni er nefnilega búinn að vera sérstaklega óáhugaverður undanfarið... jafnvel þó við reynum reglulega að lauma lífsnauðsynlegum matvælum á hann (æ, þið vitið - kókómjólk, súkkulaðikex, ís...). Við vorum eitthvað að ræða þetta um daginn, enda var okkur hætt að lítast á blikuna!

Auður: Hvað er mamma eiginlega að meina með kærleiksbjörn? Eigum við að fara að éta kærleiksbirni?

Silja: Já díses, það er líka hundasápa á innkaupalistanum... við eigum ekki einu sinni hund!

... föttuðum síðan stuttu seinna að á miðanum stóð kókosmjólk og handsápa. Samt frekar leiðinlegur innkaupalisti, sko.

15 febrúar 2007

Don't be lonely...

...find your soul mate today!

...var fyrirsögnin á ruslpóstinum sem ég var að fá rétt í þessu. Það er örugglega fínt trikk að senda út svoleiðis ruslpóst daginn eftir Valentínusardag... margir ennþá grátandi ofan í kakóbollann sinn yfir því að enginn hafi sent þeim tylft rauðra rósa á Rómantískasta Degi Ársins.

Ég henti nú ruslpóstinum bara. Enda er ég ekkert einmana. Fékk sko kort í tilefni dagsins! Framan á því var mynd af rós. Held að hjartað í mér hafi aldrei slegið jafn hratt. Gleymdi að anda. Manaði mig síðan upp í að lesa kortið. Ég elska þig! var fyrsta setningin. Elsku besta mamma mín...

Held ég eigi engin börn?

Þetta var samt mjög fallegt kort.