21 ágúst 2007

haust

Fyrsti skóladagurinn í nýja skólanum var afar sveittur - fólkið í Kennó virðist ekki hafa heyrt um loftræstingu. Klukkan var varla orðin tíu þegar ástandið var orðið svo slæmt að fólk hikaði við að hlýða þegar því var sagt að teygja rækilega úr sér á einni hópeflis-stöðinni. Annars var dagurinn ágætur... en ég ætla ekki að mæta í ullarsokkabuxum á morgun.

Ég eyddi síðasta föstudagskvöldi sumarsins í að dansa á Kofanum og Sirkus. Þar var líka sveitt. Kannski er inn að vera sveittur þessa dagana. Nennti ekki að vera menningarleg á laugardaginn - og þó. Horfði á flugeldasýninguna og hélt svo heim til Gégé og Gríms, þar sem Grímur dídjeiaði eins og honum einum er lagið, og það er sjálfsagt menningarviðburður í sjálfu sér. Skálmaði svo niður Laugaveginn á leiðinni heim, og óð rusl upp á mið læri. Ullabjakk.

16 ágúst 2007

Þó enn sé bara miður ágúst er sumarið næstum búið - því á mánudaginn klukkan áttaþrjátíu ætla ég að byrja í nýjum skóla, og þegar skólinn er byrjaður er sjálfkrafa kominn vetur. Ég á þessvegna bara tvo "alvöru" vinnudaga eftir (að vinna bara seinni part dags hlýtur þá að vera grín?). Ég er ekki búin að ákveða hvað mér finnst um þetta allt saman, en eitt er víst - á morgun, eftir Síðustu Sundferð Sumarsins, ætla ég að dansa gleðidans (það er fínt í sundi - ég er bara komin með ógeð!).

Ég er þó að minnsta kosti búin að nýta helgarnar afskaplega vel í sumar - og síðasta helgi var engin undantekning. Vandaði mig við að komast á hvísla-og-faðma stigið á föstudagskvöldið, Veru til mikillar gleði. Vaknaði síðan alltíeinu nakin á laugardagsmorgni - en í mínu eigin rúmi, sem betur fer. Dröslaði mér niðrí bæ til að horfa á Gleðigönguna. Hún var skemmtileg, en skemmtilegri voru tónleikarnir og sólin og hamingjan. Laugardagskvöldið var ruglað, tímaskyn mitt ruglaðist í það minnsta allverulega. Ég er nefnilega handviss um að klukkutíminn sem leið frá því að stelpurnar yfirgáfu mig og þar til ég kom sjálfri mér heim hafi verið þrír tímar. Á þessum klukkutíma tókst mér einhvernveginn að dansa, kjafta, troðast í gegnum fatahengisþvöguna, dansa meira, rölta yfir á Qbar, drekka bjór, kjafta meira og fara á trúnó með manni sem ég hef aldrei hitt fyrr.

Annars er Gégé loksins komin heim frá Egyptalandi, og það er gott. Hún fór samt strax í skólabækurnar, en á föstudaginn má trufla hana. Það er enn betra.

08 ágúst 2007

klukkið

Kristjana klukkaði mig og ég ætla aldrei þessu vant að vera memm.

8 atriði sem þið vissuð (kannski) ekki um mig:

1. Þegar ég var lítil ætlaði ég að verða vörubílsstjóri þegar ég yrði stór. Og bókasafnsfræðingur einsog mamma. Ég er hætt við að verða stór.

2. Ég verð að spegla á mér rassinn áður en ég fer út úr húsi. Ég hélt það væri eðlilegt, en systur mínar segja að það sé skrítið?

3. Einusinni skrifaði ég erótíska sögu um Rut og Rho. Hana ætla ég aldrei að birta (fyrir áhugasama gegna Rut og Rho mikilvægu hlutverki í stöðvun umritunnar á DNA-i baktería...).

4. Ég elska Baywatch-lagið.

5. Einusinni talaði ég svo mikið (og oft) um brjóst (mín eigin og annarra) að Sólveigu ofbauð. Hún fílar samt alveg brjóst, sko.

6. Það tekur mig sirka klukkutíma að borða eina dós af "plat"skyri (platskyr er allt skyr sem ekki er heimahrært rjómaskyr).

7. Fyrir nokkrum árum síðan litu varðeldir sem ég kveikti svona út. Síðasta sumar tókst mér síðan loksins að kveikja svona varðeld - með einni eldspýtu og án þess að svindla!

8. Mér þykja orðin kajak og sitka óeðlilega flott.

Ég ætla engan að klukka. Nema einhver vilji klukkast, þá skal ég klukka viðkomandi.