26 október 2007

Við pabbi horfðum á fréttirnar í kvöld. Okkur þykir báðum gaman að rífast við sjónvarpið - og stundum við hvort annað. Fréttirnar í kvöld voru frekar leiðinlegar framan af og lítið hægt að rífast við þær (hver rífst við fréttir um flóttafólk og bílveltur??). En síðan kom fréttin frá kirkjuþinginu, um að prestum verði heimilt að staðfesta samvist samkynhneigðra (hæ? samvist? ég þekki engan, hvorki samkynhneigðan né gagnkynhneigðan, sem segist vera í staðfestri samvist - en það er kannski efni í annað blogg) ef lögum varðandi það verður breytt á Alþingi. Við pabbi settum okkur bæði í rifrildisstellingarnar (ég halla höfðinu og andvarpa - hann hoppar á fætur og hlær), en hann var á undan, svo ég gerði mig tilbúna til að rífast bæði við pabba og sjónvarpið.

Pabbi vildi samt bara meina að trúfélög ættu ekki að hafa rétt til að gefa saman fólk í lagalega staðfesta samvist eða hjónaband yfir höfuð. Æ, pabbi, þú ert ágætur.

Er síðan búin að eyða kvöldinu í netrannsóknir á kirkjuþinginu, hjónabandi og staðfestri samvist. Því miður. Því nú er ég hissa og reið og pínulítið leið. Ég er nefnilega svo heppin að þurfa ekki, dags daglega, að umgangast þröngsýnt eða fordómafullt fólk - en ósköp er mikið af því á moggablogginu. Og alltaf bregður mér jafn mikið þegar ég rekst á það. Kannski er ég bara of góðu vön, og kannski er það alls ekki miður að ég reki mig í annað slagið.

Það er annars óvenjulega mikið af djúsí fréttum þessa dagana. Hvað finnst ykkur um negrastrákana

10 október 2007

mig langar í kandíflossvél!

Ég nennti ekki að fara að sofa. Svo ég kveikti á tölvunni. Og síðan á sjónvarpinu svo ég hefði eitthvað að hlusta á. Ég var svo óheppin að alltíeinu var sjónvarpsdagskráin búin, og Vörutorgið tók við.

Ég hef heyrt ýmislegt um þetta blessaða Vörutorg, en ég horfi ekkert sérstaklega mikið á sjónvarp og hef þar af leiðandi ekki orðið fyrir því óláni að sjá þennan hrylling. Horfði hinsvegar á þrjár hrútleiðinlegar auglýsingar - tvær um líkamsræktartæki og eina um vítamín. Og mér er spurn: hvaða manneskja með fullu viti lætur plata sig til að leika í svona auglýsingu? Og hverjum datt í hug að það væri góð hugmynd að láta tvo fullorðna karlmenn sitja í sófa og eiga innilegar samræður um vítamín? Og hvað ætli svona fitness-sport gæji fái borgað fyrir að segja einhverja steypu og sýna á sér magavöðvana?

Það er ástæða fyrir því að ég sagði að ég væri óheppin að hafa lent á Vörutorgsauglýsingamaraþoni. Nú verð ég að sækja sæng og kúra í sófanum. Og horfa á Vörutorgið þangað til ég get ekki haldið augunum opnum lengur. Ég á sko við vandamál að stríða - ég elska svona auglýsingar. Ég er einsog óvirkur alki - en nú er ég dottin í það. Ó boj.

Hvort mynduð þið frekar kaupa ykkur kandíflossvél eða vistvænt pottasett?

08 október 2007

endurvinnsla

"Þetta er ótrúlega svona 80's. Æ, þið vitið - lítur út fyrir að vera rusl, en er það samt ekki"

... sagði Björk í kvöld. Og móðgaði þar með að minnsta kosti helming íslenskra ungmenna.

Hélt matarboð í gær, og bauð síðan í hugsunarleysi í partí. Partíið varð fjölmennara og furðulegra en ég hafði áætlað. Arna kom með skyr og hangikjöt og bauð öllum að smakka. "Kúkurinn í lauginni" var sunginn fullum hálsi. Glösin kláruðust, svo Adda varð að notast við mælikönnu. Og Tinna fór heim með bólgna vör og sögu af því þegar Grímur kýldi hana í partíi. Klukkan þrjú í morgun æddi ég síðan um allt hús og tróð bjórdósum í bónuspoka. Það er kominn tími á Sorpuferð.

Og þá tek ég kannski með mér eitthvað "ótrúlega svona 80's". Því það var bara diet-kók flaska.