Við pabbi horfðum á fréttirnar í kvöld. Okkur þykir báðum gaman að rífast við sjónvarpið - og stundum við hvort annað. Fréttirnar í kvöld voru frekar leiðinlegar framan af og lítið hægt að rífast við þær (hver rífst við fréttir um flóttafólk og bílveltur??). En síðan kom fréttin frá kirkjuþinginu, um að prestum verði heimilt að staðfesta samvist samkynhneigðra (hæ? samvist? ég þekki engan, hvorki samkynhneigðan né gagnkynhneigðan, sem segist vera í staðfestri samvist - en það er kannski efni í annað blogg) ef lögum varðandi það verður breytt á Alþingi. Við pabbi settum okkur bæði í rifrildisstellingarnar (ég halla höfðinu og andvarpa - hann hoppar á fætur og hlær), en hann var á undan, svo ég gerði mig tilbúna til að rífast bæði við pabba og sjónvarpið.
Pabbi vildi samt bara meina að trúfélög ættu ekki að hafa rétt til að gefa saman fólk í lagalega staðfesta samvist eða hjónaband yfir höfuð. Æ, pabbi, þú ert ágætur.
Er síðan búin að eyða kvöldinu í netrannsóknir á kirkjuþinginu, hjónabandi og staðfestri samvist. Því miður. Því nú er ég hissa og reið og pínulítið leið. Ég er nefnilega svo heppin að þurfa ekki, dags daglega, að umgangast þröngsýnt eða fordómafullt fólk - en ósköp er mikið af því á moggablogginu. Og alltaf bregður mér jafn mikið þegar ég rekst á það. Kannski er ég bara of góðu vön, og kannski er það alls ekki miður að ég reki mig í annað slagið.
Það er annars óvenjulega mikið af djúsí fréttum þessa dagana. Hvað finnst ykkur um negrastrákana