10 október 2007

mig langar í kandíflossvél!

Ég nennti ekki að fara að sofa. Svo ég kveikti á tölvunni. Og síðan á sjónvarpinu svo ég hefði eitthvað að hlusta á. Ég var svo óheppin að alltíeinu var sjónvarpsdagskráin búin, og Vörutorgið tók við.

Ég hef heyrt ýmislegt um þetta blessaða Vörutorg, en ég horfi ekkert sérstaklega mikið á sjónvarp og hef þar af leiðandi ekki orðið fyrir því óláni að sjá þennan hrylling. Horfði hinsvegar á þrjár hrútleiðinlegar auglýsingar - tvær um líkamsræktartæki og eina um vítamín. Og mér er spurn: hvaða manneskja með fullu viti lætur plata sig til að leika í svona auglýsingu? Og hverjum datt í hug að það væri góð hugmynd að láta tvo fullorðna karlmenn sitja í sófa og eiga innilegar samræður um vítamín? Og hvað ætli svona fitness-sport gæji fái borgað fyrir að segja einhverja steypu og sýna á sér magavöðvana?

Það er ástæða fyrir því að ég sagði að ég væri óheppin að hafa lent á Vörutorgsauglýsingamaraþoni. Nú verð ég að sækja sæng og kúra í sófanum. Og horfa á Vörutorgið þangað til ég get ekki haldið augunum opnum lengur. Ég á sko við vandamál að stríða - ég elska svona auglýsingar. Ég er einsog óvirkur alki - en nú er ég dottin í það. Ó boj.

Hvort mynduð þið frekar kaupa ykkur kandíflossvél eða vistvænt pottasett?

Engin ummæli: