25 desember 2007

jóladrama

Á þessu heimili eru flestir pakkasjúkir. Eiginlega allir nema pabbi, en það er ótrúlega erfitt að finna handa honum jólagjöf. Hann er aldrei óánægður, en hann verður heldur aldrei himinlifandi. Nema í gær.

Það var ekki einu sinni "alvöru" jólagjöf sem vakti svona mikla lukku. Það var möndlugjöfin - sem pabbi fékk eiginlega bara vegna þess að hann skóflaði í sig helmingnum af grautnum.

Þarna eru pabbi og nýjasti fjölskyldumeðlimurinn - Mandla. Mandla er ótrúlega krúttleg og ótrúlega mjúk. Hún var því knúsuð allt kvöldið og fékk að hjálpa til við að opna marga pakka. Pabbi spurði Möndlu hvort hún vildi giftast sér - sennilega til þess að hefna sín á mömmu (um daginn spurði hún ipodinn sinn hvort hann vildi giftast sér, og greyið pabbi svaraði með já-i því hann hélt að bónorðið væri til hans). Mamma varð fúl og spurði hvort hann elskaði Möndlu meira en sig. Ég reyndi að útskýra fyrir henni að ást hans til Möndlu væri glæný, og þess vegna kannski ákafari, en það þýddi ekki endilega að hún væri sterkari. Mamma trúði því ekki.

Seinna um kvöldið klappaði mamma Möndlu og lýsti því yfir að hún væri nýjasta og besta barnið hennar. Ég hrópaði eitthvað um það, hvort mamma elskaði Möndlu meira en mig - og fékk svarið um nýja og ákafa ást beint í hausinn.

Pabbi bjó um Möndlu í sófanum, og þar svaf hún enn þegar ég skreið á fætur löngu eftir hádegi í dag.

19 desember 2007

Greip andann á lofti rétt í þessu, þegar ég las yfir blogg gærdagsins og áttaði mig á því að ég hafði gert æði stór mistök. Einhvernvegin slysaðist ég til að skrifa "...tryggingafyrirtækið er bara að láta mig vita að þeir séu búnir að afgreiða kröfuna..." Orðið tryggingafyrirtæki er þó alls ekki karlkyns, og því fer fjarri að allir starfsmenn tryggingafyrirtækja séu karlmenn. Ég er miður mín yfir því að hafa gerst sek um að nota svona karllægt málfar - sérstaklega þar sem það er líka langt frá því að vera málfræðilega rétt.

Systir mín á hins vegar heiðurinn að skemmtilegustu setningunni sem ég heyrði í dag, en um kvöldmatarleytið tilkynnti hún mömmu að hún hefði sofið hjá efnafræðikennaranum sínum. Við systur, sem allar þrjár höfum kynnst þessum tiltekna kennara, veinuðum af hlátri. Mömmu þótti þetta ekki alveg jafn fyndið.

(Það er kannski rétt að taka það fram að systir mín hefur aldrei háttað hjá neinum af kennurunum sínum. Mamma og Systir voru bara að rökræða um það hvort Systir hefði fengið 10 í efnafræði vegna þess að kennaranum væri sérstaklega vel við hana. Rök systur minnar gegn því voru að hún hefði sofnað í tíma hjá þessum kennara - setningin bögglaðist bara eitthvað saman á leiðinni frá heila að munni. Og varð einmitt að ágætri ástæðu fyrir einkunnagjöfinni... nema Systir hafi kannski viljað halda því fram að hún sé arfaslök í rúminu.)

18 desember 2007

Ég taldi mig vera nokkuð sleipa í ensku. En í dag... í dag fékk ég bréf (í tvíriti!) frá skosku tryggingafyrirtæki. Tilefnið var læknisheimsókn sem ég fór í þegar ég var í Bandaríkjunum fyrir einu og hálfu ári síðan. Ég skil orðin í bréfinu. En ég skil alls ekki innihaldið.

Það er eiginlega tvennt sem kemur til greina: annað hvort er allt í gúddí og tryggingafyrirtækið er bara að láta mig vita að það sé búið að afgreiða kröfuna sem ég skilaði inn (í ágúst 2006, bæðövei)... eða ég skulda einhverjum (lækninum? tryggingafyrirtækinu? sumarbúðunum? bankanum?) mörghundruð dollara.

Óska eftir einhverjum sem tekur að sér þýðingar á fyrirtækjaensku. Helst án gjalds - ég gæti jú verið stórskuldug fyrir.

Er annars búin að vera á jútúb flakki undanfarin kvöld. Varð ógurlega spennt þegar ég sá nýtt myndband með Kelly Willis (hún nær inn á topp 15 listann minn... hugsanlega topp 10 á réttum degi).



Ég er ekki enn búin að eignast diskinn sem lagið er á, verð að bæta úr því hið snarasta. Er samt ekki alveg búin að ákveða hvað mér þykir um lagið... ég er eiginlega hrifnust af eldgömlu lögunum hennar... hér er eitt frá 1992, það er yndislega hallærislegt!

14 desember 2007

siðblind?

Þegar ég á að vera að læra fyrir próf verð ég yfirleitt afar áhugasöm um allt annað en það sem ég er að læra um þá stundina. Þannig gerðist það, að ég sat fyrir framan sjónvarpið í gær með þroskasálfræðibók í kjöltunni - augun á bókinni, eyrun á sjónvarpinu. Það er að segja, þangað til Kastljósið byrjaði.

Eitt af því, sem ég þoli allra verst við íslenskt samfélag, er ofuráherslan á kristni allsstaðar. Ég er ekki trúuð. Ber þó að sjálfsögðu fulla virðingu fyrir þeim sem það eru, og dettur ekki í hug að gagnrýna aðra fyrir trúarsannfæringu sína. Það skiptir mig satt að segja litlu á hvað fólk trúir, svo lengi sem það getur rætt trú sína (eða trúleysi) án þess að reyna að þvinga skoðunum sínum upp á aðra. Sem krakki glímdi ég við afar stórt vandamál - ég trúði ekki á Guð, en kirkjan bauð upp á ótrúlega skemmtilegar frístundir. Ég lét mig því hafa það að fara með örfáar bænir til að komast í sumarbúðir í viku, og syngja B-I-B-L-Í-A til að fá að borða popp og horfa á vídjó á þriðjudagskvöldum. Ég gerði mér fyllilega grein fyrir því að þetta væri hræsni... en þegar ég var tíu ára skipti það mig meiru að fá að vera hluti af hópnum, en að vera samkvæm sjálfri mér.

Það var þó enginn sem neyddi mig til þess að taka þátt í tómstundastarfi KFUK. Ég valdi það sjálf - að vísu án þess að vita að í boði væri annað starf, þar sem ég þyrfti ekki einu sinni að hugsa um Jesú, hvað þá að syngja um að hann væri besti vinur minn. Hins vegar var mér reglulega, á þessum árum, smalað upp í rútu ásamt öllum öðrum börnum í skólanum. Síðan var keyrt til kirkju. Mér datt seint í hug að eitthvað væri athugavert við þetta. Þetta var jú bara vettvangsferð, alveg eins og ferðirnar á Kjarvalsstaði eða löggustöðina. Ég var orðin unglingur þegar ég kveikti á því, að ef til vill væri ekki rétt að blanda kirkjustarfi saman við skólastarf. Þegar ég var í áttunda bekk spurði ég því kennarann minn hvort ég yrði að fara í kirkju fyrir jólin. Svarið var já - og málið var útrætt það árið. Næsta ár ræddi ég þetta við annan kennara. Útskýrði fyrir honum að ég væri ekki trúuð, og kirkjuferðin væri því gjörsamlega tilgangslaus fyrir mig. En aftur varð ég að mæta í kirkuna. Ég sat á aftasta bekk og opnaði ekki munninn á meðan bekkjarfélagar mínir sungu jólasálma. Síðasta árið mitt í grunnskóla gekk ég upp að kennaranum mínum og sagðist ekki ætla í kirkju. Kennarinn hélt því fram að ég yrði að fara. Ég stakk upp á því að foreldrar mínir gætu gefið mér leyfi. Það gátu þau ekki, samkvæmt kennaranum. Ég lagði til að mér yrði úthlutað aukaverkefni í stærðfræði, sem ég myndi leysa á skólabókasafninu á meðan aðrir færu til kirkju. Nei, það var ekki heldur hægt. Í kirkjuna átti ég að fara, og í kirkjuna fór ég á endanum. Ég hefði auðvitað átt að harðneita, og taka afleiðingunum (sem sjálfsagt hefðu ekki orðið alvarlegar). En á þessum árum átti ég erfitt með að standa fast á mínu, og mér datt ekki í hug að óhlýðnast fullorðnu fólki.

En aftur að Kastljósinu. Í gær mættu Guðni Ágústsson og Þorgerður Katrín í umræður, þar sem rætt var um, að klausa um kristilegt siðgæði í skólastarfi verði tekin út úr lögum. Guðni sagði, að honum þætti það "undanlátssemi" við minnihlutahóp að gera það - ég veit ekki hvort hann valdi orð sín svona vitlaust eða hvort honum var alvara. Það er hins vegar aldrei undanlátssemi að gæta þess að jafnrétti ríki.

Annars voru umræðurnar allar hálfkjánalegar. Þorgerður Katrín hefur verið einn af þeim fáu sjálfstæðismönnum sem ég hef borið nokkra virðingu fyrir, en hún klúðraði því rækilega í þessum umræðum, þegar hún tók það fram að samfélagið ætti enn að lúta kristnum gildum og lét skína í það að eina ástæða þess að fjarlægja ætti textann úr lögum væri sú að samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu mætti þetta ekki standa í lögum. Hins vegar má - og á! - enn að leggja mikla áherslu á kristna trú og kristin gildi í skólastarfi.

Ég er svo aldeilis bit. Ég geri mér fulla grein fyrir því, að kristni hefur skipt miklu máli í sögu Íslendinga. Og mér þykir eðlilegt að í trúarbragðafræði sé e.t.v. lögð mest áhersla á fræðslu um kristna trú, því hún er samofin menningu okkar. Það er hins vegar ekki þar með sagt að við þurfum að kenna börnum kristin gildi. Kristni hefur engan einkarétt á siðgæði og góðum gildum. Ég er ekki kristin, og hef því að sjálfsögðu ekki kristið siðgæði. Það þýðir þó ekki að ég sé siðblind.

(En það má kannski deila um það)