19 desember 2007

Greip andann á lofti rétt í þessu, þegar ég las yfir blogg gærdagsins og áttaði mig á því að ég hafði gert æði stór mistök. Einhvernvegin slysaðist ég til að skrifa "...tryggingafyrirtækið er bara að láta mig vita að þeir séu búnir að afgreiða kröfuna..." Orðið tryggingafyrirtæki er þó alls ekki karlkyns, og því fer fjarri að allir starfsmenn tryggingafyrirtækja séu karlmenn. Ég er miður mín yfir því að hafa gerst sek um að nota svona karllægt málfar - sérstaklega þar sem það er líka langt frá því að vera málfræðilega rétt.

Systir mín á hins vegar heiðurinn að skemmtilegustu setningunni sem ég heyrði í dag, en um kvöldmatarleytið tilkynnti hún mömmu að hún hefði sofið hjá efnafræðikennaranum sínum. Við systur, sem allar þrjár höfum kynnst þessum tiltekna kennara, veinuðum af hlátri. Mömmu þótti þetta ekki alveg jafn fyndið.

(Það er kannski rétt að taka það fram að systir mín hefur aldrei háttað hjá neinum af kennurunum sínum. Mamma og Systir voru bara að rökræða um það hvort Systir hefði fengið 10 í efnafræði vegna þess að kennaranum væri sérstaklega vel við hana. Rök systur minnar gegn því voru að hún hefði sofnað í tíma hjá þessum kennara - setningin bögglaðist bara eitthvað saman á leiðinni frá heila að munni. Og varð einmitt að ágætri ástæðu fyrir einkunnagjöfinni... nema Systir hafi kannski viljað halda því fram að hún sé arfaslök í rúminu.)

3 ummæli:

Lilja sagði...

Hahahahaha...ekki var það Einar nokkur Óskarsson?? ;)

Audur sagði...

Neei, það var nú ekki hann. Bara krúttið hann Sigurgeir :)

Lilja sagði...

hehe, ég skil...hann var nú einn uppáhaldskennarinn minn í MH !!