Á þessu heimili eru flestir pakkasjúkir. Eiginlega allir nema pabbi, en það er ótrúlega erfitt að finna handa honum jólagjöf. Hann er aldrei óánægður, en hann verður heldur aldrei himinlifandi. Nema í gær.
Það var ekki einu sinni "alvöru" jólagjöf sem vakti svona mikla lukku. Það var möndlugjöfin - sem pabbi fékk eiginlega bara vegna þess að hann skóflaði í sig helmingnum af grautnum.

Þarna eru pabbi og nýjasti fjölskyldumeðlimurinn - Mandla. Mandla er ótrúlega krúttleg og ótrúlega mjúk. Hún var því knúsuð allt kvöldið og fékk að hjálpa til við að opna marga pakka. Pabbi spurði Möndlu hvort hún vildi giftast sér - sennilega til þess að hefna sín á mömmu (um daginn spurði hún ipodinn sinn hvort hann vildi giftast sér, og greyið pabbi svaraði með já-i því hann hélt að bónorðið væri til hans). Mamma varð fúl og spurði hvort hann elskaði Möndlu meira en sig. Ég reyndi að útskýra fyrir henni að ást hans til Möndlu væri glæný, og þess vegna kannski ákafari, en það þýddi ekki endilega að hún væri sterkari. Mamma trúði því ekki.
Seinna um kvöldið klappaði mamma Möndlu og lýsti því yfir að hún væri nýjasta og besta barnið hennar. Ég hrópaði eitthvað um það, hvort mamma elskaði Möndlu meira en mig - og fékk svarið um nýja og ákafa ást beint í hausinn.
Pabbi bjó um Möndlu í sófanum, og þar svaf hún enn þegar ég skreið á fætur löngu eftir hádegi í dag.
2 ummæli:
Hmmm... þannig pabbi þinn vill giftast barni móður þinnar sem er tæknilega systir þín?
You always seem to amaze me!
Nei sko. Pabbi vildi giftast Möndlu. Sem átti enga foreldra. En svo hætti hann við enda samasem harðgiftur maður. Og ma+pa ættleiddu hana í staðinn.
Skrifa ummæli