17 mars 2008
14 mars 2008
sumar
Ég komst að þessari niðurstöðu þegar risastór krakkahópur lék sér á planinu í Vesturhlíð seinni partinn í dag, með tilheyrandi skrækjum að sjálfsögðu. Sumir á peysunni, eins og nauðsynlegt er á sumrin. Krítarnar voru dregnar fram, og að minnsta kosti þrír fótboltar. Og seinna, þegar ég var að ganga frá eftir daginn, uppgötvaði ég að hver einasti gluggi og allar þrjár dyr hússins voru opin upp á gátt.
Hjólaði heim í sumarstuði (á stuttermabolnum!), svona hálfskítug í framan (æ, kannist þið ekki við "ég var að leika mér í sandkassanum" andlitið?). Og langaði alveg gífurlega í sól og Austurvöll og bjór og frisbídisk. Sólin var reyndar að hverfa, frisbídiskurinn er týndur og Austurvöllur var tómur. En bjórinn var góður þrátt fyrir það.
12 mars 2008
hjólandi
(meira af bitru stelpunni á hjólinu. þetta er samt gamalt - ég skrifaði þennan texta fyrir skólann í fyrra)
Fyrir nokkrum vikum var ég á leið heim úr vinnunni. Þar sem ég rúllaði niður Lönguhlíðina, ofurlítið annars hugar eftir langan dag, áttaði ég mig á því að beint fyrir framan mig á veginum var bílstjóralaus bifreið. Ég snarhemlaði og leit til vinstri. Umferðin var þétt og hröð, svo mér þótti líklegt að ég gæti ekki skipt um akrein fyrr en eftir um það bil fjórtán ár. Hægra megin við mig var gangstétt. Ég beygði til hægri.
Þar sem ég dröslaði hjólinu mínu yfir háan gangstéttarkantinn bölvaði ég. Reykjavíkurborg fyrir að hafa gangstéttina svona háa. Veðurguðunum fyrir að láta rigna. Og ótillitssömum ökumönnum fyrir að leggja á miðjum hjólastígum.
Hjólastígurinn í Lönguhlíðinni er vel merktur (svo vel, að þegar ég byrjaði fyrst að hjóla þessa leið sá ég ekkert nema merkin og velti því lengi fyrir mér hvar í ósköpunum þessi hjólastígur væri!). Þar að auki er auðvelt að sjá hvar skilin á milli stígs og götu eru – þetta er því ljómandi góður hjólastígur, þó stuttur sé. En hann kemur ekki að miklu gagni, því íbúar við Lönguhlíð virðast halda að þarna sé búið að koma fyrir fyrsta flokks bílastæðum.
Ég kýs að nota reiðhjólið mitt sem samgöngutæki. Ég fylgi umferðarreglum, sem getur reyndar verið snúið því bílstjórar í Reykjavík virðast ekki gera sér grein fyrir því að hjólreiðamenn lúti oftast – en ekki alltaf! - sömu umferðarreglum og þeir. Ég set nagladekk undir hjólið á veturna. Ég kveiki á fram- og afturljósi þegar fer að dimma. Og hjóla að sjálfsögðu með hjálm (enda þykir mér vænt um höfuðið á mér).
En ef reiðhjólið á að nýtast sem samgöngutæki verða samgönguleiðirnar að vera nothæfar. Mér þætti gaman að sjá hvernig ökumenn myndu bregðast við ef búið væri að leggja eins og einni Toyotu á miðri Miklubrautinni.
11 mars 2008
fífl
Ég geri mér grein fyrir því að flestir keyra niður Laugaveginn á ógnarhraða. Og að sjálfsögðu - að sjálfsögðu! - á ég (kjánalegur hjólreiðamaðurinn) engan rétt á því að hjóla í hægri kanti akreinarinnar (enda engin lög sem kveða á um það). Það er líka ekki nema sjálfsögð kurteisi að flauta lengi og vel á hjólreiðamanneskju og gefa henni síðan illt auga þegar hún kemst ekki lengra til hægri. Sérstaklega þegar það eru ekki nema u.þ.b. tveir metrar í næsta bíl. Það munar nú um minna!
Og eftir að búið er að hrekja hjólreiðamann eins nálægt kantinum og mögulegt er, er augljóslega nauðsynlegt að stíga bensínið í botn til að sýna hver ræður. Tvo metra.
Ég skil þetta núna, og vil þess vegna biðjast afsökunar á því að hafa öskrað á eftir þér að þú ættir að hafa mök við sjálfa þig - þér er þó að sjálfsögðu frjálst að gera það ef þig langar til.
Kær kveðja,
Auður
PS - viltu koma í kapp niður Laugaveginn á morgun? Ég þori að veðja að ég vinn aftur.