(meira af bitru stelpunni á hjólinu. þetta er samt gamalt - ég skrifaði þennan texta fyrir skólann í fyrra)
Fyrir nokkrum vikum var ég á leið heim úr vinnunni. Þar sem ég rúllaði niður Lönguhlíðina, ofurlítið annars hugar eftir langan dag, áttaði ég mig á því að beint fyrir framan mig á veginum var bílstjóralaus bifreið. Ég snarhemlaði og leit til vinstri. Umferðin var þétt og hröð, svo mér þótti líklegt að ég gæti ekki skipt um akrein fyrr en eftir um það bil fjórtán ár. Hægra megin við mig var gangstétt. Ég beygði til hægri.
Þar sem ég dröslaði hjólinu mínu yfir háan gangstéttarkantinn bölvaði ég. Reykjavíkurborg fyrir að hafa gangstéttina svona háa. Veðurguðunum fyrir að láta rigna. Og ótillitssömum ökumönnum fyrir að leggja á miðjum hjólastígum.
Hjólastígurinn í Lönguhlíðinni er vel merktur (svo vel, að þegar ég byrjaði fyrst að hjóla þessa leið sá ég ekkert nema merkin og velti því lengi fyrir mér hvar í ósköpunum þessi hjólastígur væri!). Þar að auki er auðvelt að sjá hvar skilin á milli stígs og götu eru – þetta er því ljómandi góður hjólastígur, þó stuttur sé. En hann kemur ekki að miklu gagni, því íbúar við Lönguhlíð virðast halda að þarna sé búið að koma fyrir fyrsta flokks bílastæðum.
Ég kýs að nota reiðhjólið mitt sem samgöngutæki. Ég fylgi umferðarreglum, sem getur reyndar verið snúið því bílstjórar í Reykjavík virðast ekki gera sér grein fyrir því að hjólreiðamenn lúti oftast – en ekki alltaf! - sömu umferðarreglum og þeir. Ég set nagladekk undir hjólið á veturna. Ég kveiki á fram- og afturljósi þegar fer að dimma. Og hjóla að sjálfsögðu með hjálm (enda þykir mér vænt um höfuðið á mér).
En ef reiðhjólið á að nýtast sem samgöngutæki verða samgönguleiðirnar að vera nothæfar. Mér þætti gaman að sjá hvernig ökumenn myndu bregðast við ef búið væri að leggja eins og einni Toyotu á miðri Miklubrautinni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli