26 nóvember 2007
ÍslEnska
Einu sinni gerðist ég sek um að láta út úr mér setninguna "Er flag down hér?", en mér til varnar hafði ég varla talað íslensku í fleiri vikur og gat ómögulega munað orðið fánaathöfn - og eftir eitt enskt orð slæddist annað óvart með.
Ég skil ósköp vel að stundum verði sjónvarps- og útvarpsfréttamönnum á. Ég veit betur en margir hvað það getur verið auðvelt að hnýta tunguna í hnút (fyrr í kvöld talaði ég um að mæla líkamspressu og blóðhita...). En ég get bara alls ekki skilið hvernig hryllilega ljót málskrípi geta endað á prenti, allra síst í auglýsingu. Nú veit ég ekki neitt um auglýsingagerð, en ég geri ráð fyrir því, að fleiri en einn og fleiri en tveir komi að gerð hverrar auglýsingar. Ég get heldur ekki trúað því, að enginn lesi þær yfir áður en þær eru settar í prentun.
Samt rekst ég reglulega á hlægilegar málfræði- og stafsetningarvillur í auglýsingum. Yfirleitt flissa ég bara og hristi höfuðið - en í gær var mér svo brugðið að ég vissi ekki almennilega hvað ég átti að gera. Í laugardagsblaði 24stunda var heilsíðuauglýsing frá Mirale. Auglýsingin er fáránlega ljót, en ég tók ekki eftir því fyrr en seinna. Því efst á síðunni stendur með stórum stöfum Fegraðu þitt heimili!
Jújú. Það veitir kannski ekki af að fegra mitt heimili. Minn stofusófi er orðinn frekar druslulegur, og það er alveg kominn tími á að þrífa mína glugga vandlega. Fyrir jólin ætla ég líka að skella minni jólaseríu upp í hlyninn fyrir framan mitt hús, þá verður svo jólalegt í minni götu!
(Í Sunnudagsmogganum var líka ofvaxin auglýsing frá Mirale. Sú auglýsing var enn ljótari en laugardagsauglýsingin - ég ætti kannski bara að þakka fyrir að íslenskunni í auglýsingunni fór ekki hrakandi samhliða annarri hönnun.)
22 nóvember 2007

Þetta erum við Diesel ásamt tveimur sérstaklega kátum sumarbúðastúlkum. Þetta voru ekki einu sinni okkar börn (þessa vikuna voru börnin okkar nefnilega alls engin börn, heldur fjórar unglingsstúlkur og hjólin þeirra). En það skiptir litlu máli. Þegar ég sá þessa mynd fékk ég samt svo hryllilega mikla heimþrá. Í sumarbúðunum er maður yfirleitt sveittur, ógreiddur og sólbrenndur (sjá mynd), fötin manns lykta eins og borðtuskur þegar þau koma úr þvottavélinni, og maður þarf reglulega að vakna á nóttunni til að díla við leðurblökur, ælu eða átta skælandi stelpur. En í sumarbúðunum er maður líka mikilvægasta manneskja í lífi krakkahóps í eina viku, maður lærir að meta loftræstingu og klósett með vatnskassa, og lífið er einfaldara og betra en annars staðar.
Það getur líka verið ágætt að þurfa ekki að velta því fyrir sér hvenær maður plokkaði síðast á sér augabrúnirnar...

11 nóvember 2007
Svavan mín kom í örstutta Íslandsheimsókn um helgina - það var ógurlega gaman að sjá hana, þó stoppið hafi verið heldur stutt í þetta sinn. Laugardagskvöldið var alveg hreint ljómandi skemmtilegt. Ég kenndi stelpunum prumpuleikinn - en þann leik lék ég stanslaust í þrjá mánuði sumarið 2006 (það er ekkert sjónvarp í sumarbúðunum...). Leikurinn vakti að sjálfsögðu mikla lukku og ég hlakka til að fara í hann á næsta þriðjudagskaffihúsi!
Við töltum í bæinn eftir miðnætti. Stoppuðum örstutta stund á Qbar og ég hoppaði hæð mína af gleði þegar ég sá að það er komin ný hurð á stúlknasalernið þar. Ég þurfti því ekki að óttast að einhver myndi skríða inn um neðri part dyranna í þetta sinn. Eftir þetta ánægjulega pissustopp skruppum við á Næsta, því þar er bjórinn í fallegustu glösunum. Þar skemmtum við okkur yfir fermingardreng sem virtist hafa skellt sér á eldheitt stefnumót með móður vinar síns. Og þegar tveir fimmtu hlutar hópsins fundu sig knúna til að fara heim að kúra röltum við hinar yfir á Kofann og dönsuðum við næntís hallærislög (nema Helga, sem vingaðist við stelpu sem var annað hvort klædd eins og ósiðsamleg hjúkrunarkona eða Hard Rock starfsstúlka).
Í dag er ég löt. Og ég sem ætlaði að læra svo mikið um helgina.
10 nóvember 2007
væluskjóða
05 nóvember 2007
www.bringyourown.org
Mér finnst ég alltaf vera að drukkna í plastpokum. Pokapokinn í eldhúsinu spýtir þeim reglulega yfir gólfið, og oftast lenda ónothæfir plastpokar (æ, svona litlir og/eða asnalegur úr bókabúðum og apótekum) í ruslinu (enn hefur mér nefnilega ekki tekist að sannfæra foreldrana um ágæti endurvinnslutunnunnar). Ég er þess vegna farin að frábiðja mér plastpoka í nær hvert einasta sinn sem ég kaupi eitthvað. Oftast kemur fát á afgreiðslufólkið - "ha, viltu ekki poka!?", og stundum hefur fólk horft undarlega á mig í Bónus á meðan ég treð spínatpoka og niðursuðudósum ofan í íþróttatöskuna (það var samt skemmtilegast um daginn þegar mér tókst loksins að finna not fyrir einn hankann á bakpokanum - ég krækti honum utanum baguette og hjólaði svo glöð í bragði niður Laugaveginn).
Hingað til hef ég sem sagt sloppið við óþarfa poka. En í dag skrapp ég á geisladiskamarkaðinn í Perlunni. Fann Bride & Prejudice á spottprís. Borgaði hana. Og þegar afgreiðslustúlkan ætlaði að setja hana í poka sagðist ég að sjálfsögðu ekki þurfa poka. "Ha?", sagði hún. Ég endurtók að ég vildi ekki poka. "Sko, ég verð að láta þetta í poka. Svo það sjáist að þú sért búin að borga", var svarið. Ég varð svo hissa að ég kinkaði bara kolli, tók við pokanum, og gekk út.
Ég er búin að hugsa um þetta í allan dag, og ég get ekki enn skilið hvaða tilgangi pokinn þjónaði. Þetta var bara svona glær plastpoki. Ég hefði alveg getað gengið beinustu leið inn í Perluna með plastpoka utan af eplum í vasanum og fyllt hann af geisladiskum. Hefði ég þá bara mátt labba út? Því glæri plastpokinn þýddi að ég væri búin að borga?