Mér finnst ég alltaf vera að drukkna í plastpokum. Pokapokinn í eldhúsinu spýtir þeim reglulega yfir gólfið, og oftast lenda ónothæfir plastpokar (æ, svona litlir og/eða asnalegur úr bókabúðum og apótekum) í ruslinu (enn hefur mér nefnilega ekki tekist að sannfæra foreldrana um ágæti endurvinnslutunnunnar). Ég er þess vegna farin að frábiðja mér plastpoka í nær hvert einasta sinn sem ég kaupi eitthvað. Oftast kemur fát á afgreiðslufólkið - "ha, viltu ekki poka!?", og stundum hefur fólk horft undarlega á mig í Bónus á meðan ég treð spínatpoka og niðursuðudósum ofan í íþróttatöskuna (það var samt skemmtilegast um daginn þegar mér tókst loksins að finna not fyrir einn hankann á bakpokanum - ég krækti honum utanum baguette og hjólaði svo glöð í bragði niður Laugaveginn).
Hingað til hef ég sem sagt sloppið við óþarfa poka. En í dag skrapp ég á geisladiskamarkaðinn í Perlunni. Fann Bride & Prejudice á spottprís. Borgaði hana. Og þegar afgreiðslustúlkan ætlaði að setja hana í poka sagðist ég að sjálfsögðu ekki þurfa poka. "Ha?", sagði hún. Ég endurtók að ég vildi ekki poka. "Sko, ég verð að láta þetta í poka. Svo það sjáist að þú sért búin að borga", var svarið. Ég varð svo hissa að ég kinkaði bara kolli, tók við pokanum, og gekk út.
Ég er búin að hugsa um þetta í allan dag, og ég get ekki enn skilið hvaða tilgangi pokinn þjónaði. Þetta var bara svona glær plastpoki. Ég hefði alveg getað gengið beinustu leið inn í Perluna með plastpoka utan af eplum í vasanum og fyllt hann af geisladiskum. Hefði ég þá bara mátt labba út? Því glæri plastpokinn þýddi að ég væri búin að borga?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli