
Þetta erum við Diesel ásamt tveimur sérstaklega kátum sumarbúðastúlkum. Þetta voru ekki einu sinni okkar börn (þessa vikuna voru börnin okkar nefnilega alls engin börn, heldur fjórar unglingsstúlkur og hjólin þeirra). En það skiptir litlu máli. Þegar ég sá þessa mynd fékk ég samt svo hryllilega mikla heimþrá. Í sumarbúðunum er maður yfirleitt sveittur, ógreiddur og sólbrenndur (sjá mynd), fötin manns lykta eins og borðtuskur þegar þau koma úr þvottavélinni, og maður þarf reglulega að vakna á nóttunni til að díla við leðurblökur, ælu eða átta skælandi stelpur. En í sumarbúðunum er maður líka mikilvægasta manneskja í lífi krakkahóps í eina viku, maður lærir að meta loftræstingu og klósett með vatnskassa, og lífið er einfaldara og betra en annars staðar.
Það getur líka verið ágætt að þurfa ekki að velta því fyrir sér hvenær maður plokkaði síðast á sér augabrúnirnar...

Engin ummæli:
Skrifa ummæli