26 nóvember 2007

ÍslEnska

Systir mín á það til að taka sturtu. Við hlæjum yfirleitt bara að því - eftir að búið er að leiðrétta málvilluna (enda tökum við slíku létt, þó við séum duglegar að ritskoða okkur sjálfar og aðra).

Einu sinni gerðist ég sek um að láta út úr mér setninguna "Er flag down hér?", en mér til varnar hafði ég varla talað íslensku í fleiri vikur og gat ómögulega munað orðið fánaathöfn - og eftir eitt enskt orð slæddist annað óvart með.

Ég skil ósköp vel að stundum verði sjónvarps- og útvarpsfréttamönnum á. Ég veit betur en margir hvað það getur verið auðvelt að hnýta tunguna í hnút (fyrr í kvöld talaði ég um að mæla líkamspressu og blóðhita...). En ég get bara alls ekki skilið hvernig hryllilega ljót málskrípi geta endað á prenti, allra síst í auglýsingu. Nú veit ég ekki neitt um auglýsingagerð, en ég geri ráð fyrir því, að fleiri en einn og fleiri en tveir komi að gerð hverrar auglýsingar. Ég get heldur ekki trúað því, að enginn lesi þær yfir áður en þær eru settar í prentun.

Samt rekst ég reglulega á hlægilegar málfræði- og stafsetningarvillur í auglýsingum. Yfirleitt flissa ég bara og hristi höfuðið - en í gær var mér svo brugðið að ég vissi ekki almennilega hvað ég átti að gera. Í laugardagsblaði 24stunda var heilsíðuauglýsing frá Mirale. Auglýsingin er fáránlega ljót, en ég tók ekki eftir því fyrr en seinna. Því efst á síðunni stendur með stórum stöfum Fegraðu þitt heimili!

Jújú. Það veitir kannski ekki af að fegra mitt heimili. Minn stofusófi er orðinn frekar druslulegur, og það er alveg kominn tími á að þrífa mína glugga vandlega. Fyrir jólin ætla ég líka að skella minni jólaseríu upp í hlyninn fyrir framan mitt hús, þá verður svo jólalegt í minni götu!

(Í Sunnudagsmogganum var líka ofvaxin auglýsing frá Mirale. Sú auglýsing var enn ljótari en laugardagsauglýsingin - ég ætti kannski bara að þakka fyrir að íslenskunni í auglýsingunni fór ekki hrakandi samhliða annarri hönnun.)

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hehe, já ég hef sjálf orðið fyrir þessu ÍslEnsku fyrirbrigði !! ...Sagði t.d. við TF í haust "Hafðu góðan dag" !!