25 desember 2007

jóladrama

Á þessu heimili eru flestir pakkasjúkir. Eiginlega allir nema pabbi, en það er ótrúlega erfitt að finna handa honum jólagjöf. Hann er aldrei óánægður, en hann verður heldur aldrei himinlifandi. Nema í gær.

Það var ekki einu sinni "alvöru" jólagjöf sem vakti svona mikla lukku. Það var möndlugjöfin - sem pabbi fékk eiginlega bara vegna þess að hann skóflaði í sig helmingnum af grautnum.

Þarna eru pabbi og nýjasti fjölskyldumeðlimurinn - Mandla. Mandla er ótrúlega krúttleg og ótrúlega mjúk. Hún var því knúsuð allt kvöldið og fékk að hjálpa til við að opna marga pakka. Pabbi spurði Möndlu hvort hún vildi giftast sér - sennilega til þess að hefna sín á mömmu (um daginn spurði hún ipodinn sinn hvort hann vildi giftast sér, og greyið pabbi svaraði með já-i því hann hélt að bónorðið væri til hans). Mamma varð fúl og spurði hvort hann elskaði Möndlu meira en sig. Ég reyndi að útskýra fyrir henni að ást hans til Möndlu væri glæný, og þess vegna kannski ákafari, en það þýddi ekki endilega að hún væri sterkari. Mamma trúði því ekki.

Seinna um kvöldið klappaði mamma Möndlu og lýsti því yfir að hún væri nýjasta og besta barnið hennar. Ég hrópaði eitthvað um það, hvort mamma elskaði Möndlu meira en mig - og fékk svarið um nýja og ákafa ást beint í hausinn.

Pabbi bjó um Möndlu í sófanum, og þar svaf hún enn þegar ég skreið á fætur löngu eftir hádegi í dag.

19 desember 2007

Greip andann á lofti rétt í þessu, þegar ég las yfir blogg gærdagsins og áttaði mig á því að ég hafði gert æði stór mistök. Einhvernvegin slysaðist ég til að skrifa "...tryggingafyrirtækið er bara að láta mig vita að þeir séu búnir að afgreiða kröfuna..." Orðið tryggingafyrirtæki er þó alls ekki karlkyns, og því fer fjarri að allir starfsmenn tryggingafyrirtækja séu karlmenn. Ég er miður mín yfir því að hafa gerst sek um að nota svona karllægt málfar - sérstaklega þar sem það er líka langt frá því að vera málfræðilega rétt.

Systir mín á hins vegar heiðurinn að skemmtilegustu setningunni sem ég heyrði í dag, en um kvöldmatarleytið tilkynnti hún mömmu að hún hefði sofið hjá efnafræðikennaranum sínum. Við systur, sem allar þrjár höfum kynnst þessum tiltekna kennara, veinuðum af hlátri. Mömmu þótti þetta ekki alveg jafn fyndið.

(Það er kannski rétt að taka það fram að systir mín hefur aldrei háttað hjá neinum af kennurunum sínum. Mamma og Systir voru bara að rökræða um það hvort Systir hefði fengið 10 í efnafræði vegna þess að kennaranum væri sérstaklega vel við hana. Rök systur minnar gegn því voru að hún hefði sofnað í tíma hjá þessum kennara - setningin bögglaðist bara eitthvað saman á leiðinni frá heila að munni. Og varð einmitt að ágætri ástæðu fyrir einkunnagjöfinni... nema Systir hafi kannski viljað halda því fram að hún sé arfaslök í rúminu.)

18 desember 2007

Ég taldi mig vera nokkuð sleipa í ensku. En í dag... í dag fékk ég bréf (í tvíriti!) frá skosku tryggingafyrirtæki. Tilefnið var læknisheimsókn sem ég fór í þegar ég var í Bandaríkjunum fyrir einu og hálfu ári síðan. Ég skil orðin í bréfinu. En ég skil alls ekki innihaldið.

Það er eiginlega tvennt sem kemur til greina: annað hvort er allt í gúddí og tryggingafyrirtækið er bara að láta mig vita að það sé búið að afgreiða kröfuna sem ég skilaði inn (í ágúst 2006, bæðövei)... eða ég skulda einhverjum (lækninum? tryggingafyrirtækinu? sumarbúðunum? bankanum?) mörghundruð dollara.

Óska eftir einhverjum sem tekur að sér þýðingar á fyrirtækjaensku. Helst án gjalds - ég gæti jú verið stórskuldug fyrir.

Er annars búin að vera á jútúb flakki undanfarin kvöld. Varð ógurlega spennt þegar ég sá nýtt myndband með Kelly Willis (hún nær inn á topp 15 listann minn... hugsanlega topp 10 á réttum degi).



Ég er ekki enn búin að eignast diskinn sem lagið er á, verð að bæta úr því hið snarasta. Er samt ekki alveg búin að ákveða hvað mér þykir um lagið... ég er eiginlega hrifnust af eldgömlu lögunum hennar... hér er eitt frá 1992, það er yndislega hallærislegt!

14 desember 2007

siðblind?

Þegar ég á að vera að læra fyrir próf verð ég yfirleitt afar áhugasöm um allt annað en það sem ég er að læra um þá stundina. Þannig gerðist það, að ég sat fyrir framan sjónvarpið í gær með þroskasálfræðibók í kjöltunni - augun á bókinni, eyrun á sjónvarpinu. Það er að segja, þangað til Kastljósið byrjaði.

Eitt af því, sem ég þoli allra verst við íslenskt samfélag, er ofuráherslan á kristni allsstaðar. Ég er ekki trúuð. Ber þó að sjálfsögðu fulla virðingu fyrir þeim sem það eru, og dettur ekki í hug að gagnrýna aðra fyrir trúarsannfæringu sína. Það skiptir mig satt að segja litlu á hvað fólk trúir, svo lengi sem það getur rætt trú sína (eða trúleysi) án þess að reyna að þvinga skoðunum sínum upp á aðra. Sem krakki glímdi ég við afar stórt vandamál - ég trúði ekki á Guð, en kirkjan bauð upp á ótrúlega skemmtilegar frístundir. Ég lét mig því hafa það að fara með örfáar bænir til að komast í sumarbúðir í viku, og syngja B-I-B-L-Í-A til að fá að borða popp og horfa á vídjó á þriðjudagskvöldum. Ég gerði mér fyllilega grein fyrir því að þetta væri hræsni... en þegar ég var tíu ára skipti það mig meiru að fá að vera hluti af hópnum, en að vera samkvæm sjálfri mér.

Það var þó enginn sem neyddi mig til þess að taka þátt í tómstundastarfi KFUK. Ég valdi það sjálf - að vísu án þess að vita að í boði væri annað starf, þar sem ég þyrfti ekki einu sinni að hugsa um Jesú, hvað þá að syngja um að hann væri besti vinur minn. Hins vegar var mér reglulega, á þessum árum, smalað upp í rútu ásamt öllum öðrum börnum í skólanum. Síðan var keyrt til kirkju. Mér datt seint í hug að eitthvað væri athugavert við þetta. Þetta var jú bara vettvangsferð, alveg eins og ferðirnar á Kjarvalsstaði eða löggustöðina. Ég var orðin unglingur þegar ég kveikti á því, að ef til vill væri ekki rétt að blanda kirkjustarfi saman við skólastarf. Þegar ég var í áttunda bekk spurði ég því kennarann minn hvort ég yrði að fara í kirkju fyrir jólin. Svarið var já - og málið var útrætt það árið. Næsta ár ræddi ég þetta við annan kennara. Útskýrði fyrir honum að ég væri ekki trúuð, og kirkjuferðin væri því gjörsamlega tilgangslaus fyrir mig. En aftur varð ég að mæta í kirkuna. Ég sat á aftasta bekk og opnaði ekki munninn á meðan bekkjarfélagar mínir sungu jólasálma. Síðasta árið mitt í grunnskóla gekk ég upp að kennaranum mínum og sagðist ekki ætla í kirkju. Kennarinn hélt því fram að ég yrði að fara. Ég stakk upp á því að foreldrar mínir gætu gefið mér leyfi. Það gátu þau ekki, samkvæmt kennaranum. Ég lagði til að mér yrði úthlutað aukaverkefni í stærðfræði, sem ég myndi leysa á skólabókasafninu á meðan aðrir færu til kirkju. Nei, það var ekki heldur hægt. Í kirkjuna átti ég að fara, og í kirkjuna fór ég á endanum. Ég hefði auðvitað átt að harðneita, og taka afleiðingunum (sem sjálfsagt hefðu ekki orðið alvarlegar). En á þessum árum átti ég erfitt með að standa fast á mínu, og mér datt ekki í hug að óhlýðnast fullorðnu fólki.

En aftur að Kastljósinu. Í gær mættu Guðni Ágústsson og Þorgerður Katrín í umræður, þar sem rætt var um, að klausa um kristilegt siðgæði í skólastarfi verði tekin út úr lögum. Guðni sagði, að honum þætti það "undanlátssemi" við minnihlutahóp að gera það - ég veit ekki hvort hann valdi orð sín svona vitlaust eða hvort honum var alvara. Það er hins vegar aldrei undanlátssemi að gæta þess að jafnrétti ríki.

Annars voru umræðurnar allar hálfkjánalegar. Þorgerður Katrín hefur verið einn af þeim fáu sjálfstæðismönnum sem ég hef borið nokkra virðingu fyrir, en hún klúðraði því rækilega í þessum umræðum, þegar hún tók það fram að samfélagið ætti enn að lúta kristnum gildum og lét skína í það að eina ástæða þess að fjarlægja ætti textann úr lögum væri sú að samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu mætti þetta ekki standa í lögum. Hins vegar má - og á! - enn að leggja mikla áherslu á kristna trú og kristin gildi í skólastarfi.

Ég er svo aldeilis bit. Ég geri mér fulla grein fyrir því, að kristni hefur skipt miklu máli í sögu Íslendinga. Og mér þykir eðlilegt að í trúarbragðafræði sé e.t.v. lögð mest áhersla á fræðslu um kristna trú, því hún er samofin menningu okkar. Það er hins vegar ekki þar með sagt að við þurfum að kenna börnum kristin gildi. Kristni hefur engan einkarétt á siðgæði og góðum gildum. Ég er ekki kristin, og hef því að sjálfsögðu ekki kristið siðgæði. Það þýðir þó ekki að ég sé siðblind.

(En það má kannski deila um það)

26 nóvember 2007

ÍslEnska

Systir mín á það til að taka sturtu. Við hlæjum yfirleitt bara að því - eftir að búið er að leiðrétta málvilluna (enda tökum við slíku létt, þó við séum duglegar að ritskoða okkur sjálfar og aðra).

Einu sinni gerðist ég sek um að láta út úr mér setninguna "Er flag down hér?", en mér til varnar hafði ég varla talað íslensku í fleiri vikur og gat ómögulega munað orðið fánaathöfn - og eftir eitt enskt orð slæddist annað óvart með.

Ég skil ósköp vel að stundum verði sjónvarps- og útvarpsfréttamönnum á. Ég veit betur en margir hvað það getur verið auðvelt að hnýta tunguna í hnút (fyrr í kvöld talaði ég um að mæla líkamspressu og blóðhita...). En ég get bara alls ekki skilið hvernig hryllilega ljót málskrípi geta endað á prenti, allra síst í auglýsingu. Nú veit ég ekki neitt um auglýsingagerð, en ég geri ráð fyrir því, að fleiri en einn og fleiri en tveir komi að gerð hverrar auglýsingar. Ég get heldur ekki trúað því, að enginn lesi þær yfir áður en þær eru settar í prentun.

Samt rekst ég reglulega á hlægilegar málfræði- og stafsetningarvillur í auglýsingum. Yfirleitt flissa ég bara og hristi höfuðið - en í gær var mér svo brugðið að ég vissi ekki almennilega hvað ég átti að gera. Í laugardagsblaði 24stunda var heilsíðuauglýsing frá Mirale. Auglýsingin er fáránlega ljót, en ég tók ekki eftir því fyrr en seinna. Því efst á síðunni stendur með stórum stöfum Fegraðu þitt heimili!

Jújú. Það veitir kannski ekki af að fegra mitt heimili. Minn stofusófi er orðinn frekar druslulegur, og það er alveg kominn tími á að þrífa mína glugga vandlega. Fyrir jólin ætla ég líka að skella minni jólaseríu upp í hlyninn fyrir framan mitt hús, þá verður svo jólalegt í minni götu!

(Í Sunnudagsmogganum var líka ofvaxin auglýsing frá Mirale. Sú auglýsing var enn ljótari en laugardagsauglýsingin - ég ætti kannski bara að þakka fyrir að íslenskunni í auglýsingunni fór ekki hrakandi samhliða annarri hönnun.)

22 nóvember 2007

Í örvæntingarfullri tilraun til að forðast verkefnastaflann sem bíður mín er ég búin að vera að fara í gegnum gamlar myndir - mínar eigin og annarra. Rakst á rúmlega tveggja ára gamla mynd rétt í þessu...


Þetta erum við Diesel ásamt tveimur sérstaklega kátum sumarbúðastúlkum. Þetta voru ekki einu sinni okkar börn (þessa vikuna voru börnin okkar nefnilega alls engin börn, heldur fjórar unglingsstúlkur og hjólin þeirra). En það skiptir litlu máli. Þegar ég sá þessa mynd fékk ég samt svo hryllilega mikla heimþrá. Í sumarbúðunum er maður yfirleitt sveittur, ógreiddur og sólbrenndur (sjá mynd), fötin manns lykta eins og borðtuskur þegar þau koma úr þvottavélinni, og maður þarf reglulega að vakna á nóttunni til að díla við leðurblökur, ælu eða átta skælandi stelpur. En í sumarbúðunum er maður líka mikilvægasta manneskja í lífi krakkahóps í eina viku, maður lærir að meta loftræstingu og klósett með vatnskassa, og lífið er einfaldara og betra en annars staðar.

Það getur líka verið ágætt að þurfa ekki að velta því fyrir sér hvenær maður plokkaði síðast á sér augabrúnirnar...

11 nóvember 2007

Svavan mín kom í örstutta Íslandsheimsókn um helgina - það var ógurlega gaman að sjá hana, þó stoppið hafi verið heldur stutt í þetta sinn. Laugardagskvöldið var alveg hreint ljómandi skemmtilegt. Ég kenndi stelpunum prumpuleikinn - en þann leik lék ég stanslaust í þrjá mánuði sumarið 2006 (það er ekkert sjónvarp í sumarbúðunum...). Leikurinn vakti að sjálfsögðu mikla lukku og ég hlakka til að fara í hann á næsta þriðjudagskaffihúsi!

Við töltum í bæinn eftir miðnætti. Stoppuðum örstutta stund á Qbar og ég hoppaði hæð mína af gleði þegar ég sá að það er komin ný hurð á stúlknasalernið þar. Ég þurfti því ekki að óttast að einhver myndi skríða inn um neðri part dyranna í þetta sinn. Eftir þetta ánægjulega pissustopp skruppum við á Næsta, því þar er bjórinn í fallegustu glösunum. Þar skemmtum við okkur yfir fermingardreng sem virtist hafa skellt sér á eldheitt stefnumót með móður vinar síns. Og þegar tveir fimmtu hlutar hópsins fundu sig knúna til að fara heim að kúra röltum við hinar yfir á Kofann og dönsuðum við næntís hallærislög (nema Helga, sem vingaðist við stelpu sem var annað hvort klædd eins og ósiðsamleg hjúkrunarkona eða Hard Rock starfsstúlka).

Í dag er ég löt. Og ég sem ætlaði að læra svo mikið um helgina.

10 nóvember 2007

væluskjóða

Eftir brjálæðislega ritgerðartörn í gær og í nótt, lítinn svefn, hryllilegan bootcamp tíma (þar sem ég fór næstum að gráta - sem hefur ekki gerst síðan í allra fyrsta tímanum), erfiðan vinnudag (þar sem ég fékk reyndar að spila samstæðuspil í bland við að tækla barn í brjálæðiskasti), örvæntingarfulla leit að Hjallavegi (á hjóli - ég þræddi hverja einustu götu í hverfinu áður en ég fann þá réttu) og kvöldstund undir meðallagi (þ.e. á "ég er fabjúlös"-skala, því félagsskapurinn var góður) settist ég niður fyrir framan sjónvarpið. Svotil laus við samviskubit (það bítur ekki eins fast rétt eftir verkefnaskil, jafnvel þó enn sé yfirþyrmandi magn verkefna sem ég er á seinasta snúningi með!). Í sjónvarpinu var Stepmom. Ég taldi mér trú um að ég væri ekki eins mikil væluskjóða og þegar ég sá hana fyrst. Það var alrangt.

05 nóvember 2007

www.bringyourown.org

Mér finnst ég alltaf vera að drukkna í plastpokum. Pokapokinn í eldhúsinu spýtir þeim reglulega yfir gólfið, og oftast lenda ónothæfir plastpokar (æ, svona litlir og/eða asnalegur úr bókabúðum og apótekum) í ruslinu (enn hefur mér nefnilega ekki tekist að sannfæra foreldrana um ágæti endurvinnslutunnunnar). Ég er þess vegna farin að frábiðja mér plastpoka í nær hvert einasta sinn sem ég kaupi eitthvað. Oftast kemur fát á afgreiðslufólkið - "ha, viltu ekki poka!?", og stundum hefur fólk horft undarlega á mig í Bónus á meðan ég treð spínatpoka og niðursuðudósum ofan í íþróttatöskuna (það var samt skemmtilegast um daginn þegar mér tókst loksins að finna not fyrir einn hankann á bakpokanum - ég krækti honum utanum baguette og hjólaði svo glöð í bragði niður Laugaveginn).

Hingað til hef ég sem sagt sloppið við óþarfa poka. En í dag skrapp ég á geisladiskamarkaðinn í Perlunni. Fann Bride & Prejudice á spottprís. Borgaði hana. Og þegar afgreiðslustúlkan ætlaði að setja hana í poka sagðist ég að sjálfsögðu ekki þurfa poka. "Ha?", sagði hún. Ég endurtók að ég vildi ekki poka. "Sko, ég verð að láta þetta í poka. Svo það sjáist að þú sért búin að borga", var svarið. Ég varð svo hissa að ég kinkaði bara kolli, tók við pokanum, og gekk út.

Ég er búin að hugsa um þetta í allan dag, og ég get ekki enn skilið hvaða tilgangi pokinn þjónaði. Þetta var bara svona glær plastpoki. Ég hefði alveg getað gengið beinustu leið inn í Perluna með plastpoka utan af eplum í vasanum og fyllt hann af geisladiskum. Hefði ég þá bara mátt labba út? Því glæri plastpokinn þýddi að ég væri búin að borga?

26 október 2007

Við pabbi horfðum á fréttirnar í kvöld. Okkur þykir báðum gaman að rífast við sjónvarpið - og stundum við hvort annað. Fréttirnar í kvöld voru frekar leiðinlegar framan af og lítið hægt að rífast við þær (hver rífst við fréttir um flóttafólk og bílveltur??). En síðan kom fréttin frá kirkjuþinginu, um að prestum verði heimilt að staðfesta samvist samkynhneigðra (hæ? samvist? ég þekki engan, hvorki samkynhneigðan né gagnkynhneigðan, sem segist vera í staðfestri samvist - en það er kannski efni í annað blogg) ef lögum varðandi það verður breytt á Alþingi. Við pabbi settum okkur bæði í rifrildisstellingarnar (ég halla höfðinu og andvarpa - hann hoppar á fætur og hlær), en hann var á undan, svo ég gerði mig tilbúna til að rífast bæði við pabba og sjónvarpið.

Pabbi vildi samt bara meina að trúfélög ættu ekki að hafa rétt til að gefa saman fólk í lagalega staðfesta samvist eða hjónaband yfir höfuð. Æ, pabbi, þú ert ágætur.

Er síðan búin að eyða kvöldinu í netrannsóknir á kirkjuþinginu, hjónabandi og staðfestri samvist. Því miður. Því nú er ég hissa og reið og pínulítið leið. Ég er nefnilega svo heppin að þurfa ekki, dags daglega, að umgangast þröngsýnt eða fordómafullt fólk - en ósköp er mikið af því á moggablogginu. Og alltaf bregður mér jafn mikið þegar ég rekst á það. Kannski er ég bara of góðu vön, og kannski er það alls ekki miður að ég reki mig í annað slagið.

Það er annars óvenjulega mikið af djúsí fréttum þessa dagana. Hvað finnst ykkur um negrastrákana

10 október 2007

mig langar í kandíflossvél!

Ég nennti ekki að fara að sofa. Svo ég kveikti á tölvunni. Og síðan á sjónvarpinu svo ég hefði eitthvað að hlusta á. Ég var svo óheppin að alltíeinu var sjónvarpsdagskráin búin, og Vörutorgið tók við.

Ég hef heyrt ýmislegt um þetta blessaða Vörutorg, en ég horfi ekkert sérstaklega mikið á sjónvarp og hef þar af leiðandi ekki orðið fyrir því óláni að sjá þennan hrylling. Horfði hinsvegar á þrjár hrútleiðinlegar auglýsingar - tvær um líkamsræktartæki og eina um vítamín. Og mér er spurn: hvaða manneskja með fullu viti lætur plata sig til að leika í svona auglýsingu? Og hverjum datt í hug að það væri góð hugmynd að láta tvo fullorðna karlmenn sitja í sófa og eiga innilegar samræður um vítamín? Og hvað ætli svona fitness-sport gæji fái borgað fyrir að segja einhverja steypu og sýna á sér magavöðvana?

Það er ástæða fyrir því að ég sagði að ég væri óheppin að hafa lent á Vörutorgsauglýsingamaraþoni. Nú verð ég að sækja sæng og kúra í sófanum. Og horfa á Vörutorgið þangað til ég get ekki haldið augunum opnum lengur. Ég á sko við vandamál að stríða - ég elska svona auglýsingar. Ég er einsog óvirkur alki - en nú er ég dottin í það. Ó boj.

Hvort mynduð þið frekar kaupa ykkur kandíflossvél eða vistvænt pottasett?

08 október 2007

endurvinnsla

"Þetta er ótrúlega svona 80's. Æ, þið vitið - lítur út fyrir að vera rusl, en er það samt ekki"

... sagði Björk í kvöld. Og móðgaði þar með að minnsta kosti helming íslenskra ungmenna.

Hélt matarboð í gær, og bauð síðan í hugsunarleysi í partí. Partíið varð fjölmennara og furðulegra en ég hafði áætlað. Arna kom með skyr og hangikjöt og bauð öllum að smakka. "Kúkurinn í lauginni" var sunginn fullum hálsi. Glösin kláruðust, svo Adda varð að notast við mælikönnu. Og Tinna fór heim með bólgna vör og sögu af því þegar Grímur kýldi hana í partíi. Klukkan þrjú í morgun æddi ég síðan um allt hús og tróð bjórdósum í bónuspoka. Það er kominn tími á Sorpuferð.

Og þá tek ég kannski með mér eitthvað "ótrúlega svona 80's". Því það var bara diet-kók flaska.

26 september 2007

diskó

Í gær borðaði ég kvöldmat með mömmu og afa, á meðan systurnar skutluðu pabba í blak. Mamma sagði afa frá því að hún og pabbi væru að fara til Istanbúl - á Cisco ráðstefnu (það er eitthvað tölvubull - pabbi er tölvunörd).

"Ha? Á Diskó-ráðstefnu?" sagði afi. Ég flissaði.

Nú get ég ekki hætt að ímynda mér foreldra mína í útvíðum glimmerbuxum og með afrókrullur.

Hvað talar fólk um á diskó-ráðstefnum? Eða er kannski bara dansað?

05 september 2007

útlönd

Ég er búin að vera á Íslandi í allt sumar - allt sumar! Vorferð til Parísar í maí telst ekki með, enda var hún í vor. Jújú, sumarið var frrrrábært. En fólk er alltaf að asnast til og frá, og aldrei eru allir á Íslandi. Það þykir mér fúlt. Og í kvöld strengdi ég þess heit að fara "aldrei aftur til útlanda!!" (því ég vil sko ekki vera fúl og asnaleg, sjáiði til).

Svavan mín er flutt til Múmínálfalands. Það tekur því ekki einu sinni að heimsækja hana í vetur, því Múmínhúsið er hvort sem er lokað!

(örsaga: einusinni var ég í vinnunni. við vorum útá róló. ég sat uppá kofaþaki með ágætum vini mínum. af kofanum var fínt útsýni. það sást til dæmis uppá þakið á næsta húsi. uppi á þakinu var gulur plasthringur. vinur minn benti mér á hringinn og kallaði "snorkstelpan!! hvar er snorkstelpan!?". það þótti mér krúttó.)

21 ágúst 2007

haust

Fyrsti skóladagurinn í nýja skólanum var afar sveittur - fólkið í Kennó virðist ekki hafa heyrt um loftræstingu. Klukkan var varla orðin tíu þegar ástandið var orðið svo slæmt að fólk hikaði við að hlýða þegar því var sagt að teygja rækilega úr sér á einni hópeflis-stöðinni. Annars var dagurinn ágætur... en ég ætla ekki að mæta í ullarsokkabuxum á morgun.

Ég eyddi síðasta föstudagskvöldi sumarsins í að dansa á Kofanum og Sirkus. Þar var líka sveitt. Kannski er inn að vera sveittur þessa dagana. Nennti ekki að vera menningarleg á laugardaginn - og þó. Horfði á flugeldasýninguna og hélt svo heim til Gégé og Gríms, þar sem Grímur dídjeiaði eins og honum einum er lagið, og það er sjálfsagt menningarviðburður í sjálfu sér. Skálmaði svo niður Laugaveginn á leiðinni heim, og óð rusl upp á mið læri. Ullabjakk.

16 ágúst 2007

Þó enn sé bara miður ágúst er sumarið næstum búið - því á mánudaginn klukkan áttaþrjátíu ætla ég að byrja í nýjum skóla, og þegar skólinn er byrjaður er sjálfkrafa kominn vetur. Ég á þessvegna bara tvo "alvöru" vinnudaga eftir (að vinna bara seinni part dags hlýtur þá að vera grín?). Ég er ekki búin að ákveða hvað mér finnst um þetta allt saman, en eitt er víst - á morgun, eftir Síðustu Sundferð Sumarsins, ætla ég að dansa gleðidans (það er fínt í sundi - ég er bara komin með ógeð!).

Ég er þó að minnsta kosti búin að nýta helgarnar afskaplega vel í sumar - og síðasta helgi var engin undantekning. Vandaði mig við að komast á hvísla-og-faðma stigið á föstudagskvöldið, Veru til mikillar gleði. Vaknaði síðan alltíeinu nakin á laugardagsmorgni - en í mínu eigin rúmi, sem betur fer. Dröslaði mér niðrí bæ til að horfa á Gleðigönguna. Hún var skemmtileg, en skemmtilegri voru tónleikarnir og sólin og hamingjan. Laugardagskvöldið var ruglað, tímaskyn mitt ruglaðist í það minnsta allverulega. Ég er nefnilega handviss um að klukkutíminn sem leið frá því að stelpurnar yfirgáfu mig og þar til ég kom sjálfri mér heim hafi verið þrír tímar. Á þessum klukkutíma tókst mér einhvernveginn að dansa, kjafta, troðast í gegnum fatahengisþvöguna, dansa meira, rölta yfir á Qbar, drekka bjór, kjafta meira og fara á trúnó með manni sem ég hef aldrei hitt fyrr.

Annars er Gégé loksins komin heim frá Egyptalandi, og það er gott. Hún fór samt strax í skólabækurnar, en á föstudaginn má trufla hana. Það er enn betra.

08 ágúst 2007

klukkið

Kristjana klukkaði mig og ég ætla aldrei þessu vant að vera memm.

8 atriði sem þið vissuð (kannski) ekki um mig:

1. Þegar ég var lítil ætlaði ég að verða vörubílsstjóri þegar ég yrði stór. Og bókasafnsfræðingur einsog mamma. Ég er hætt við að verða stór.

2. Ég verð að spegla á mér rassinn áður en ég fer út úr húsi. Ég hélt það væri eðlilegt, en systur mínar segja að það sé skrítið?

3. Einusinni skrifaði ég erótíska sögu um Rut og Rho. Hana ætla ég aldrei að birta (fyrir áhugasama gegna Rut og Rho mikilvægu hlutverki í stöðvun umritunnar á DNA-i baktería...).

4. Ég elska Baywatch-lagið.

5. Einusinni talaði ég svo mikið (og oft) um brjóst (mín eigin og annarra) að Sólveigu ofbauð. Hún fílar samt alveg brjóst, sko.

6. Það tekur mig sirka klukkutíma að borða eina dós af "plat"skyri (platskyr er allt skyr sem ekki er heimahrært rjómaskyr).

7. Fyrir nokkrum árum síðan litu varðeldir sem ég kveikti svona út. Síðasta sumar tókst mér síðan loksins að kveikja svona varðeld - með einni eldspýtu og án þess að svindla!

8. Mér þykja orðin kajak og sitka óeðlilega flott.

Ég ætla engan að klukka. Nema einhver vilji klukkast, þá skal ég klukka viðkomandi.

24 júlí 2007

lungað

Þegar við Helga keyrðum niður Heiðina á miðvikudag var ég næstum farin að gráta af gleði. Seyðisfjörðurinn var bestur, eins og alltaf. Ég náði þó ekki að skreppa upp í Botna, en það er ekki öll von úti enn - ég ætla aftur austur um Verslunarmannahelgina. Ég æddi samt upp einhver fjöll og hljóp þar um hlæjandi, og fékk mér einn Seyðisfjörð (það er besti réttur í heimi - tvær ristaðar brauðsneiðar með sultu og alltof sterkt kakómalt). Lungað var frábært - litlufrænkurnar æfðu sirkusleiklist í viku og stóðu sig með prýði á uppskeruhátíðinni. Helgin var rugluð, ég fór í partí á föstudagskvöldið þar sem ég þekkti eina manneskju, en allir þekktu afa minn. Á laugardaginn skálmaði ég um bæinn og upp í fjall, kom mér loks heim í Afahús um hálf níu. Mér tókst að sofa í tvo tíma, en þá hrökk ég upp handviss um að klukkan væri orðin eitt og Arna og Sylvía væru lagðar af stað í bæinn án mín. Skóflaði í mig tveimur kornfleksskálum (ég er nokkuð viss um að ég hafi enn verið drukkin, svona miðað við að nokkrum tímum seinna kom ég varla niður hálfri franskri kartöflu), en áttaði mig svo á því að ég hefði tíma til að skreppa í sturtu og allt. Bílferðin heim var skemmtileg en löng - ég þambaði rándýrt melónujógúrt á Mývatni, á Akureyri störðu viðskiptavinir Skalla á okkur Örnu eins og við værum eineygðir kaffibollar, og Nylon-lög voru sungin af mikilli innlifun í Borgarnesi. Svaf barasta ekki neitt, og ekki heldur í nótt, og af hverju í ósköpunum er ég ekki enn farin að sofa?

Hér erum við litlafrændið. Augljóslega Íslendingar - hamingjusamasta fólk í heimi!

10 júlí 2007

sumarfrí

Á föstudaginn skildi ég skóna mína eftir í vinnunni. Já, það er alveg hægt. Á föstudaginn fór ég líka í sumarfrí. Og í útilegu. Skólaus. Því af einhverjum ástæðum á ég enga strigaskó þessa dagana. Hinsvegar á ég meira af sandölum en getur talist eðlilegt fyrir Íslending. Og meira af háhæluðum skóm en getur talist eðlilegt fyrir Auði.

Þrátt fyrir skóleysi brunuðum við útúr bænum. Tjölduðum í brjáluðu roki, það var fyndnast í heimi. Ég borðaði langþráða (soja)pulsu og síðan fórum við í hvísluleik. Á laugardagskvöldið týndist ég á meðan stelpurnar borðuðu sjávarréttasúpu, það þótti mér leiðinlegt. Ósofnar og myglaðar skelltum við okkur síðan á Laugarvatn og Gullfoss og Geysi og Þingvelli. Og það var gaman.

26 júní 2007

lýsingarorð

Ég var í vinnunni í dag, eins og svo marga aðra daga. Það var ljúfur letidagur, sólin skein og úti í garði var buslað og sungið og rólað. Sumir höfðu það bara kósí og sleiktu sólina, enda um að gera að nýta tækifærið - maður veit aldrei hvað hún stoppar lengi.

Mér tókst að setjast niður í örfáar mínútur nokkrum sinnum (ég bara getekki setið kjurr, skil ekki af hverju það er svona erfitt. og kjurr er sérstaklega skemmtilegt orðskrípi). Í eitt skiptið settist góður vinur minn hjá mér, og við fórum að rabba um daginn og veginn, og litinn á flíkum fólksins í kringum okkur. Samræðurnar voru nokkuð fyrirsjáanlegar. Þessi strákur var í rauðum bol, og þessi stelpa var í brúnni peysu. Ég var í grænum bol - erfitt að missýnast það eitthvað, enda bolurinn grænni en nokkur önnur flík í fataskápnum mínum (þar sem grænt er í miklum meirihluta). Strákurinn sjálfur var hinsvegar í svart- og hvítröndóttum bol - eða það hélt ég, þar til ég spurði hann sjálfan að því hvaða litur þetta væri eiginlega. Svarið var skýrt og greinilegt - sebrahestur.

Sebrahestur! Að sjálfsögðu. Til hvers að vera að bögglast með fleiri orð en þarf til að lýsa hlutunum?

13 júní 2007

gömul

Ég varð gömul, það var fínt. Það eina sem ég er búin að fá í afmælisgjöf eru matreiðslubækur. Það er líka fínt. Ég fékk Matarást frá stelpunum og hoppaði næstum hæð mína af gleði - því tvennt af því sem mér þykir skemmtilegast er matur og alfræðiorðabækur. Gerði svo systur mínar vitlausar með því að fletta upp mozarellaosti og brasilíuhnetum og múskati - og lesa upphátt.

Ég fékk líka gott veður í ammælisgjöf, og síðan ég varð gömul hefur sólin skinið stanslaust. Í dag kom ég heim með eldrauða handleggi. Ó-ó. Nú er ég með flott mynstur á úlnliðnum eftir úrið mitt - það er töff.

Ef það verður gott veður á morgun ætla ég að safna í sandalamunstur.

Ógissla spennó!

14 maí 2007

hæ hemmi, ég kem í heimsókn!

Í dag sá ég vonda auglýsingu. Hún var eitthvað á þessa leið:

Ímyndaðu þér nýja skáldsögu eftir Hemingway. Ímyndaðu þér nýjan BMW X5.

Það er þá vonandi hægt að flytja veisluföng í nýja béemmvaffinum.

Æ, ég ætla að skreppa til Parísar. Ekki samt brjótast inn til mín á meðan, pabbi verður heima og hann lúskrar á ykkur ef þið reynið að stela óhreinu sokkunum mínum!

08 apríl 2007

enn eitt sönnunargagnið

... um það að ég sé að verða fullorðin, sko.

Sat við tölvuna fyrr í kvöld. Páskaeggið stóð hálfétið á skrifborðinu. Og ég borðaði salat. Í eftirrétt. Á páskadag. Hvurslags vitleysa er það eiginlega??

Ég ætti kannski ekkert að vera að blogga um svona hluti? Ætla að fara að hakka í mig páskaeggið, svo næst geti ég bloggað um það hversu hræðilega magapínu ég fékk af páskaeggjaátinu. Það er ekki fullorðinslegt.

Fór í páskapartí á föstudaginn langa, eins og hefðin býður upp á. Hélt svo á Kofann ásamt GL og GS, og þar var stuð og þar var ég ekki fullorðin. Því það kvöld voru bara spiluð lög frá 1996. Uppáhaldið mitt var samt þegar Skólarapp var spilað, enda er það með betri lögum sem samin hafa verið.

20 mars 2007

gettó-auður

Þeir sem hafa af einhverjum ástæðum átt leið inn í kústaskápinn herbergið mitt nýlega hafa rekið upp stór augu. Ég deili nefnilega herbergi með honum Takka, og vinum og ættingjum þykir við ekki eiga margt sameiginlegt. Ætli ég verði ekki að viðurkenna að Dagur hafði eiginlega rétt fyrir sér þegar hann sagði að Takki væri frekar gettólegur.


En mér er alveg sama! Gettó-Takki og ég erum samt vinir!

Verra þykir mér að gettóið er farið að breiða óþægilega mikið úr sér í herberginu. Og þó Takki sé velkominn, þýðir það ekki að ég vilji fá alla vini hans úr gettóinu í heimsókn...

22 febrúar 2007

Við Silja systir erum búnar að vera hálf fúlar yfir væntanlegum kvöldverðum á heimilinu. Innkaupalistinn á ísskápshurðinni er nefnilega búinn að vera sérstaklega óáhugaverður undanfarið... jafnvel þó við reynum reglulega að lauma lífsnauðsynlegum matvælum á hann (æ, þið vitið - kókómjólk, súkkulaðikex, ís...). Við vorum eitthvað að ræða þetta um daginn, enda var okkur hætt að lítast á blikuna!

Auður: Hvað er mamma eiginlega að meina með kærleiksbjörn? Eigum við að fara að éta kærleiksbirni?

Silja: Já díses, það er líka hundasápa á innkaupalistanum... við eigum ekki einu sinni hund!

... föttuðum síðan stuttu seinna að á miðanum stóð kókosmjólk og handsápa. Samt frekar leiðinlegur innkaupalisti, sko.

15 febrúar 2007

Don't be lonely...

...find your soul mate today!

...var fyrirsögnin á ruslpóstinum sem ég var að fá rétt í þessu. Það er örugglega fínt trikk að senda út svoleiðis ruslpóst daginn eftir Valentínusardag... margir ennþá grátandi ofan í kakóbollann sinn yfir því að enginn hafi sent þeim tylft rauðra rósa á Rómantískasta Degi Ársins.

Ég henti nú ruslpóstinum bara. Enda er ég ekkert einmana. Fékk sko kort í tilefni dagsins! Framan á því var mynd af rós. Held að hjartað í mér hafi aldrei slegið jafn hratt. Gleymdi að anda. Manaði mig síðan upp í að lesa kortið. Ég elska þig! var fyrsta setningin. Elsku besta mamma mín...

Held ég eigi engin börn?

Þetta var samt mjög fallegt kort.

01 janúar 2007

Til hamingju með nýja árið! Tvöþúsundogsjö leggst bara vel í mig. Enda hef ég alltaf verið hrifnari af oddatölum en sléttum tölum. Fyrri helmingur Oddatöluára er því sérstaklega góður, því þá er ég Oddatölugömul.

Þóttist vera kúl í nótt og æddi í partí. Hitti fullt af hressum gamlingjum þar sem ég skálmaði í gegnum miðbæinn rétt fyrir tvö. Ég var hinsvegar ekki eins hress og var næstum sofnuð í áramótabrjálæðinu hjá Gégé. Tókst þó að halda mér vakandi með því að leika dídjei - þeytti úrvalsskífum á borð við Pottþétt 98, Reif í dans(f)árið, og Til Guðrúnar Frá Aldísi. Þeytti svo sjálfri mér í eitt kökuboð og eitt matarboð á Fyrsta Degi Ársins. Held ég sé búin að borða of mikið á árinu, svona miðað við hvað það er lítið búið af því.